25. júní:
Í dag var ákveðið að hafa sunnudag í Ölveri þrátt fyrir það sem dagatalið segir. Það þýddi að við höfðum eins konar helgistund fyrir stelpurnar. Eftir brennó í morgun var því skipt í fjóra hópa og stelpurnar undirbjuggu stundina. Hægt var að velja milli leik- söng – dans eða bæna og skreytihóps. Leikhópurinn var vinsælastur og greinilega margir upprennandi leikarar í hópnum. Eftir hádegismat var svo stundin runninn upp og afrakstur morgunsins kom í ljós. Allar stóðu þær sig með prýði hvort sem var við að syngja, dansa, leika eða fara með bænir. Salurinn okkar var einnig vel skreyttur af stelpunum og fínn.
Eftir kaffi var svo farið út í íþróttakeppni en þar var háð ein af Ölversíþróttagreinunum stígvélaspark. Það gengur út á að fara í of stór stígvél og sparka því eins langt og hægt er af sér. Á eftir var svo farið í hoppukastala sem var blásinn upp í dag og vakti mikla lukku.
Dagurinn endaði sem fyrr með kvöldvöku en það voru stelpurnar í Fuglaveri sem tróðu upp og höfðu undirbúið sín atriði vel.
Eftir kvöldnasl fékk hvert herbergi sem fyrr sína bænakonu í heimsókn og fljótlega eftir það var komin ró.

Símkerfið bilaði í nokkra klukkutíma í kvöld einmitt yfir símatímann. Ég vona að þeir sem vildu ná í okkur hafi séð gsm númerið hér á síðunni. Það gleður mig þó að segja frá því að þetta er komið í lag og nú er hægt að hringja sem fyrr í 433-8860.
1
Ölverskveðjur,

Björg Jónsdóttir, forstöðukona