Góður dagur í Ölveri er að kvöldi kominn. Í dag kom í ljós hvaða lið sigraði brennókeppnina en afar jafnt var í liðum og þurfti úrslitaleik til að að skera úr um sigurvegara. Þeir keppa svo við foringjana á morgun, veisludag.
Eftir hádegi fóru stelpurnar út á meðan húsið breyttist í ævintýraland en þær voru svo leiddar í gegnum það við mikinn fögnuð og spenning viðstaddra. Þar leystu þær ýmsar þrautir tengdar ævintýrum.
Eftir kaffi var svo íþróttakeppni og þær sem vildu fóru í pottinn. Það voru þó fáar að þessu sinni því margar vildu frekar æfa sig fyrir hæfileikakeppnina sem fór fram á kvöldvöku í kvöld og var kvöldvakan því í lengra lagi. Hlíðarver sýndi fyrst skemmtiatriði kvöldsins og svo hófst keppnin. Margar hæfileikaríkar stelpur eru í flokknum og sumar sungu, aðrar teiknuðu eða sýndu listir sýnar. Úrslit í keppninni verða tilkynnt á morgun og þá verða viðurkenningar veittar fyrir vikuna.
Ró komst á húsið fljótt eftir að bænakonur fóru úr herbergjunum enda margar þreyttar skemmtilegan dag.
Bestu kveðjur,
Björg Jónsdóttir forstöðukona