Um hádegi fylltist Ölver af kátum og brosandi stúlkum. 44 stúlkur fylla nú staðinn og strax eru farin að myndast vinkonusambönd. Við komuna hingað var fyrst skipt í herbergi og síðan var vel borðað af grjónagraut og smurbrauði. Það voru forvitnar stelpur sem örkuðu af stað í gönguferð til að kanna nánasta umhverfi okkar hér og eftir gönguna dreifðust þær um landareignina. Bakkelsinu var vel tekið í kaffinu og síðan kláruðu þær að koma sér fyrir í herbergjunum. Eftir íþróttakeppni var boðið upp á busl í heita pottinum og skapast þar góð stemmning. Í kvöldmat var ýsa í raspi, kartöflur og ferskt grænmeti og hvarf maturinn bókstaflega ofan í þær.
Á kvöldvökunni sáu stúlkurnar í Fjallaveri um skemmtiatriðin og var mikið hlegið. Söngurinn skipaði stóran sess og síðan var hugleiðing út frá sögu úr Biblíunni. Eftir bænir var ávaxtabiti og allar höfðu sig til fyrir svefninn. Spennan er jafnan mikil að finna út hvaða bænakona kemur inn á hvert herbergi. Bænakona les sögu inni á herbergi, rabbar við þær um daginn og ýmislegt sem leitar á huga ungra stúlkna. Því næst fara þær saman með bænir og síðan fer hún fram þegar ró er komin á í herberginu.
Við bjóðum góða nótt héðan úr Ölveri, úr stilltri og hljóðri nóttinni.
Ása Björk Ólafsdóttir, forstöðukona.