Góður dagur er liðinn og yndislegar stúlkur komnar inn á herbergi með bænakonum sínum. Dagurinn er búinn að vera góður, þó svo úti hafi blásið fyrri hlutann, var veðrið orðið ágætt upp úr hádegi og mikið leikið bæði á dósastultunum og venjulegum stultum. Sippuböndin, risa-slönguspilið og brekkan voru vinsæl, þannig að búið er að sanna að það þarf ekki alltaf sól og hita til að stúlkur geti unað sér utandyra.
Matarlystin hefur verið góð, bleikur hafragrautur morgunsins auk morgunkorns, fiskibollur með kartöflum og grænmeti í hádeginu… allt borðað af bestu lyst. Sumar stúlknanna spurðu hreinlega hvort verið væri að setja þær í fitun, þegar bæði vöfflur og kartöfluvínarbrauðin voru borin fram í drekkutímanum með heitu kakóinu. Í kvöldmat voru síðan pylsur í pylsubrauði. Fyrir svefninn er síðan ávallt boðið upp á ávexti.
Annars var margt skemmtilegt gert í dag, stúlkurnar æfðu atriði fyrir hæfileikakeppnina sem var gríðarlega fjölbreytt og sérstakur gestadómari var ,,frænka“ Justins Biebers frá Kanada! Hún gerði stormandi lukku. Íþróttakeppnin var einnig á sínum stað. Við erum með afbragðs starfsfólk hér í Ölveri og engin hugmynd er of afstæð til að hægt sé að koma henni í framkvæmd, slík er ósérhlífnin.
Við höfum óskað eftir betra veðri á morgun og langar að fara í fleiri gönguferðir um svæðið, það er svo margt að skoða og kynnast.
Dvölin hér í þessum flokki er nú rúmlega hálfnuð og segjast margar vilja vera áfram, tíminn líði allt of hratt! Það eru enn nokkur laus pláss í næsta flokk, þannig að það er um að gera að skoða málið.
Með kærleikskveðju héðan úr Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.