Hingað inn í Ölver streymdu glaðar stúkur, fullar tilhlökkunar inn í ævintýralega viku. Eftir að búið var að raða þeim í herbergin, borðuðu þær vel af grjónagraut og pizzubrauði. Eftir hádegismat var farið í gönguferð um landareignina og við prófuðum risa-hengirúmið okkar. Þá fórum við í nafnaleik til að læra nöfn allra stúlknanna. Eftir frjálsan leiktíma var boðið upp á fínerí í drekkutímanum og aftur farið út að leika í sól og blíðu. Fyrsti hluti íþróttakeppninnar fór fram úti og hoppukastalinn var blásinn upp. Þar var mikið fjör.

Það var eins og stúlkurnar hefðu ekki fengið að borða í marga daga, þegar steiktur fiskur í raspi með kartöflum og grænmeti var borinn fram. Þær borðuðu virkilega vel. Á kvöldvökunni voru foringjar með leikrit og var mikið hlegið. Auk þess sungum við mikið og sögð var sagan af Góða hirðinum. Eftir bæn og kvöldsöng voru ávextir í boði og því næst gerðu stúlkurnar sig klárar fyrir svefninn. Bænakonur komu inn í herbergin þeirra, lásu, spjölluðu og báðu með þeim.

Þetta eru yndislegar stúlkur sem okkur er treyst fyrir þessa vikuna og biðjum við góðan Guð að vaka yfir öllu starfinu og leiða góðan starfshóp áfram í þeim kærleiksverkum sem framundan eru.

Kær kveðja úr kvöldsólinni hér í Ölveri,
Ása Björk Ólafsdóttir forstöðukona.

P.s myndavélin var batteríslaus í dag og því koma inn fullt af myndum annað kvöld í staðinn