Við vöknuðum í glampandi sól í morgun, það var ekki erfitt að koma stúlkunum á fætur. Eftir morgunmat, fánahyllingu, Biblíulestur þar sem við héldum áfram að skoða sköpun Guðs, brennó og hádegismat, fórum við í gönguferð niður að á. Það voru vel útbúnar stúlkur með bros á vör sem gengu með starfsfólkinu niður að ánni. Þar var enn hlýrra á árbakkanum en hér uppfrá og voru stelpurnar ekki lengi að stökkva í sundfötunum út í á. Fljótlega fóru líka að birtast stúlkur með bláar varir, en þær fundu mikið af krækiberjum og eitthvað af bláberjum líka. Okkur finnst berin vera fyrr á ferðinni í ár en oft áður. Vegna reynslu okkar af þrumuveðrinu í gær, drifum við okkur heim í Ölver þegar fremur dökkt ský birtist í fjarlægð. Okkur langaði ekkert að lenda í hellidembu.

Við komum tímanlega í drekkutímann, sem var heppilegt vegna þess að annar matvinnungurinn átti afmæli. Eftir það var keppt í þriggjastaðahlaupi og því hver brosir breiðast. Mikið var af breiðum brosum, eins og við sjáum hér alla daga. Þessi stúlknahópur er mjög glaður og bæði mikið hlegið og brosað. Við settum loft í hoppukastalann og síðan var leikið bæði úti og inni, þar sem einnig var boðið upp á perl. Eftir súrmjólk með ávaxtabitum í og smurbrauð í kvöldmatinn, var kvöldvakan og voru það stúlkurnar í Lindarveri sem höfðu undirbúið leikrit og leiki. Eftir kvöldávexti þegar allar voru komnar upp í ból, var blásið til náttfatapartýs. Þar var mikið dansað, foringi sagði/lék skemmtisögu og allar fengu popp. Eftir bænir á herbergjum sungu foringjarnir fyrir stúlkurnar frammi á gangi og ró komst á mjög fljótt.

Með sólarkveðjum úr Ölverinu okkar,
Ása Björk forstöðukona.