Enn einn dýrðardagurinn er að kveldi kominn. Þessar skemmtilegu stelpur eru búnar að vera óþreytandi að leika úti í góða veðrinu og starfsstúlkurnar eru engir eftirbátar þeirra í útiverunni. Eftir náttfatapartý gærkvöldsins voru stelpurnar furðusnöggar á fætur í morgun, borðuðu vel og voru mjög skemmtilegar í Biblíulestrinum. Við ræddum um glímuna við að gera það sem rétt er og treysta Jesú til að leiða okkur áfram. Þá skoðuðum við hvaða sögur væru í Biblíunni og þekktu þær flestar sögurnar. Við sungum söngva um margar sögurnar og höfðum gaman af. Þær eru nú flestar búnar að ná tökum á að fletta upp á ritningartextum í Nýja testamentinu og þykir mér það nokkuð gott, því margar þeirra eru mjög ungar.

Eftir plokkfiskinn í hádeginu, fórum við í fjársjóðsleit og stefndum síðan aftur niður að ánni. Þess má geta að áin okkar er á þessum árstíma eins og grunnur, breiður lækur og hætturnar ekki margar. Þar var mikið buslað og sumar sóluðu sig líka. Enn fundust mörg ber og voru bláar varirnar hressandi svona um mitt sumar. Eftir drekkutímann vorum við duglegar að leika úti við, enda er margt skemmtilegt að gera á landareigninni okkar og engum leiðist í slíkri paradís. Íþróttakeppnin var á sínum stað og einnig fórum við í pottinn. Ákveðið var að grilla ekki úti, enda nóg komið af útiveru. Á kvöldvökunni voru það stúlkurnar í Lindarveri sem sáu um atriðin og tókst vel upp. Einnig var farið í leik sem krafðist mikillar einbeitingar og mikið sungið. Foringi sagði söguna um upphafið og um Adam og Evu, en þá sögu báðu stelpurnar um í morgun á Biblíulestrinum.

Kvöldávextirnir voru vel þegnir og síðan höfðu stúlkurnar sig til fyrir svefninn. Sólin hefur skinið nánast stöðugt í dag og spáin gerir ráð fyrir fleiri slíkum dögum framundan.

Kærleikskveðjur úr Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.