Bleikur dagur í Ölveri
Ung stúlka var vakin með afmælissöng í morgunsárið, bleikur hafragrautur var í boði og alger hamingja. Ákveðið var að hafa Messudag og því völdu stúlkurnar sér hóp í hópastarfinu þar sem þær undirbjuggu messuna. Það voru leiklistarhópur, sönghópur og bænahópur sem einnig sá um skreytingar í salnum okkar. Meðfylgjandi eru myndir af þessum liðum messunnar sem þær sinntu. Gómsæt gúllassúpa var í hádegismatinn og voru henni gerð góð skil. Eftir hádegi var síðan gengið niður að Stóra steini og klifruðu sumar þeirra upp á steininn. Einnig var farið í leiki þar. Æðislegt afmæliskaffi var við hiemkomuna og missti afmælisstúlkan næstum andlitið þegar hún sá flotta tertuna! Eftir kaffi var langþráð hárgreiðslukeppni og þar sáum við margar bæði fallegar og einnig frumlegar hárgreiðslur.
Sólin hefur skinið í allan dag og sólaráburðurinn verið mikið notaður. Það má þó segja að við fullorðnu konurnar séum meira í bleiku deildinni eftir sólina heldur en stúlkurnar. Í kvöldmatinn var síðan bleikt skyr sem vakti mikla lukku og smurbrauð með banana og fleira góðgæti. Hamraver var með skemmtileg leikrit og leiki á kvöldvökunni og við fengum hugleiðingu um bænina; samtal okkar við Guð. Eftir kvöldvökuna ætluðum við í venjubundið kvöldávaxta-nart, en þá var búið að baka vöfflur, ostahorn og hita kakó. Það var ekki leiðinlegt! Þessar stúlkur kunna svo sannarlega að meta það sem gert er fyrir þær og voru yfir sig ánægðar.
Saddar og sælar ultu þær upp í rúmin sín eftir langan og viðburðaríkan dag. Allt í einu finnst okkur allt of stutt eftir af vikunni, en munum gæta þess að njóta hvers augnabliks.
Með bleikum sólarkveðjum héðan úr Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.