Það voru skríkjandi stelpur sem tóku á móti enn einum sólardeginum hér í morgun. Eftir morgunverð var fánahylling og síðan var byrjað að pakka. Á Biblíulestrinum skoðuðum við uppruna nafna stúlknanna og óvenjumörg þeirra áttu rætur í nöfnum Biblíunnar. Brennókeppnin við foringjana var mjög fjörug. Vel var borðað af pylsupasta í hádeginu og síðan fóru stúlkurnar í heita pottinn og sturtu. Allar sem vildu fengu fína hárgreiðslu og vildu margar fá fléttur í hárið.
Í kaffinu voru gómsætar bollur með bleikum glassúr og ræs krispískökur, ekkert að þeim! Síðan luku allar við að pakka, klæddu sig í sparifötin og við lékum okkur úti í góða veðrinu. Hátíðakvöldverðurinn var mjög skemmtilegur, en þar var boðið upp á heimagerðar pizzur, gos, safa og íspinna í lokin. Þá var einnig langþráð verðlaunaafhending fyrir allt sem í gangi hefur verið þessa vikuna.
Farangurinn var borinn út að rútustæði, en síðan tók loka-kvöldvakan við og þar var gríðarlegt fjör, enda foringjarnir með leikritin og ekkert til sparað í ærslagangnum. Það voru sáttar stúlkur sem kvöddu Ölver á þessu fallega kvöldi, tilbúnar að hitta fólkið sitt á ný.
Við þökkum kærlega fyrir lánið á þessum dýrmætu stúlkum og hlökkum til að sjá þær aftur síðar. Frábær starfshópur hefur gert þessa viku ógleymanlega okkur öllum, sérstaklega stúlkunum. Ég minni á mæðgna- og mæðginahelgina í september auk alls kfuk starfsins um allt land. Upplýsingar fást um það á heimasíðu kfuk á
http://www.kfum.is/aeskulydsstarf/ í september þegar starfið fer að hefjast á ný.
Með sveitasælukveðju úr Ölveri,
Ása Björk Ólafsdóttir, forstöðukona.