Í öllum sumarbúðum KFUM og KFUK er boðið upp á svokallaða ævintýraflokka nokkrum sinnum yfir sumarið. Ævintýraflokkar eru ólíkir öðrum hefðbundnum dvalarflokkum að því leyti að í þeim er lögð áhersla á óvæntar uppákomur og frávik frá hefðbundinni sumarbúðadagskrá.
Ævintýraflokkar eru tilvaldir fyrir börn sem hafa áður dvalist í sumarbúðum, en dagskrá þeirra er með ævintýralegu og kröftugu sniði til að auka fjölbreytni.
Í Ölveri eru ævintýraflokkar ætlaðir stúlkum 10 ára og eldri, í Vindáshlíð eru þeir ætlaðir stúlkum 11 ára og eldri, Í Vatnaskógi eru þeir ætlaðir drengjum 12 ára og eldri, og í Kaldárseli og á Hólavatni eru þeir ætlaðir stúlkum og drengjum 11 ára og eldri.
Jón Ómar Gunnarsson, æskulýðsprestur KFUM og KFUK, sem starfað hefur sem forstöðumaður í Vatnaskógi frá 2006, og í ævintýraflokkum frá 2004, segir að dagskrá flokkanna sé síbreytileg – aldrei eins tvö ár í röð. Jón Ómar nefnir að meðal dagskrárliða ævintýraflokka í Vatnaskógi sem hafi notið mestra vinsælda síðustu ár séu útilegur, miðnæturhermannaleikur, klifur á klifurvegg, ofurhugavatnafjör og miðnætursigling.
Bogi Benediktsson, foringi í Vatnaskógi, nefnir einnig veltibíl, aðspurður um það sem hefur verið vinsælt meðal drengja í ævintýraflokkum, og segir að í flokkunum séu hreinlega „endalaus ævintýri“. Á komandi sumri setur hann stefnu á að setja upp leikinn „Quidditch“ sem er þekktur úr sögunum um Harry Potter. Ævintýraflokkar verða í Vatnaskógi í sumar annars vegar 20.-26. júní, og hins vegar 11.-17. júlí.
Kristbjörg Heiðrún Harðardóttir hefur starfað í Ölveri til margra ára. Hún segir að það sem einkenni helst ævintýraflokka séu daglegir „þemadagar“, sem hafa hver um sig spennandi þema. „Í ævintýraflokkum í Ölveri breytum við út af hefðbundinni dagskrá og gerum margt óvænt og spennandi í staðinn. Fastir liðir eins og kvöldvökur, bíblíulestrar og brennó eru samt á sínum stað. Dæmi um það sem við höfum gert í ævintýraflokkum eru Survivor-leikur, óvissuferðir, þemaleikir út frá ýmsum ævintýrum og bíómyndum og margt fleira þar sem hugmyndaflug og sköpunargleði barnanna fá að njóta sín“, segir Kristbjörg. Ævintýraflokkar í Ölveri verða í sumar dagana 20.-26. júní, 4.-10. júlí og 18.-24. júlí.
Á Hólavatni er boðið upp á spennandi og fjöruga dagskrá í ævintýraflokkum, sem mun í sumar fela í sér óvissuferðir og heimsókn í sundlaugina á Hrafnagili, ásamt fleiri skemmtilegum uppákomum. Í dvöl á Hólavatni er einnig ómissandi að vaða í vatninu, leika sér í leiktækjum og hoppukastala, skoða sig um í náttúrunni og taka þátt í kofasmíði. Ævintýraflokkar verða í boði á Hólavatni annars vegar 4.-8. júlí og hins vegar 11.-15. júlí.
Meðal dagskrárliða í ævintýraflokkum í Kaldárseli eru gönguferðir í Valaból, varðeldur, næturganga á Helgafell, fjársjóðsleit, vatnsslagur í Kaldánni og margt fleira. Ævintýraflokkar í Kaldárseli í sumar verða annars vegar 14.-19. júní, og hins vegar 11.-15. júlí.
Í ævintýraflokkum í Vindáshlíð er bryddað upp á fjölmörgu skemmtilegu, t.d. lengri gönguferðum og ærslafullum hlutverkaleikjum. Oft hefur verið boðið upp á svokallaðan „rugldag“ þar sem dæmi eru um að matseðli hafi verið snúið við á þann hátt að morgunverður var framreiddur að kvöldi til, og kvöldverður að morgni til. Þá eru kvöldvökur með óhefðbundnu sniði, og á þeim eru skemmtilegar uppákomur á borð við hæfileikasýningu og söngvakeppni. Ævintýraflokkar í Vindáshlíð verða á eftirfarandi tímum: 23.-29.júní, 30.júní – 6.júlí, 14.-20.júlí og 2.-8.ágúst.
Starfsfólk sumarbúða KFUM og KFUK leggur sig fram um að hafa ævintýraflokka fyrst og fremst ófyrirsjáanlega og skemmtilega. Víst er að ævintýralegt sumar er framundan!
Skráning í sumarbúðir KFUM og KFUK fer fram í Þjónustumiðstöð félagsins að Holtavegi 28 í Reykjavík, í síma 588-8899, og einnig á
http://skraning.kfum.is/ .
Allar nánari upplýsingar um ævintýraflokka, hefðbundna dvalarflokka og sumarbúðir er hægt að fá hjá Þjónustumiðstöðinni (sími: 588-8899), og einnig hér á heimasíðu félagsins.