17.júní var í einu orðisagt frábær í gær. Nokkrar stelpur höfðu á orði að þetta hefði verið skemmtilegasti dagur lífs þeirra ;O) Við vöktum þær með því að slá á potta og pönnur og syngja hæ, hó jibbí jei! Síðan beið þeirra skreyttur matsalur. Eftir morgunmat fóru þær á biblíulestur og í brennó. Í hádegismat fengu þær hamborgarar og franskar og síðan var boðið upp á andlitsmálningu.
Næst var haldið í skrúðgöngu í miklu roki en stelpurnar létu það ekkert á sig fá. Við veifuðum bílum niður við þjóðveg og skemmtum nokkrum sumarbústaðaeigendum í leiðinni. Þá var haldið inn í ævintýraheim. Tollvörður hleypti stelpunum inn í hollum sem unnið höfðu sér inn stimpil. Þar beið þeirra hvert ævintýrið á fætur öðru. Þær vöktu Þyrnirós af værum blundi, smökkuðu grauta hjá Gullbrá og öskruðu úr sér lungun hjá Kaptein Krók þegar hann leyfði þeim að „krukka“ í sér. Þá tók belja við þeim sem kenndi þeim að dansa.
Í kaffitímanum hafði bakarinn okkar bakað risastóra fánaköku sem stelpurnar gæddu sér á. Eftir kaffi var farið í íþróttakeppni þar sem keppt var í kjötbollukasti og fötuhlaupi. Þá fóru allar stelpurnar í pottinn og borðuð svo pylsur í kvöldmat.
Þá var haldin kvöldvaka en þegar stelpurnar komu niður og héldu að þær væru að fá ávexti fyrir svefninn sáu þær starfsfólkið allt á náttfötunum dansandi inn í matsal. Þá hófst heljarinnar náttfatapartý þar sem þær dönsuðu, fóru á ljónaveiðar, sáu töfrabrögð hjá töfrakonu sem tókst ekki að gera neitt rétt nema í lokin þegar hún galdraði geimveru sem lumaði á ís handa öllum. Stelpurnar sofnuðu svo vært eftir frábæran dag.
Í morgun var vakið kl.9 og þær fengu kakó og brauð í morgunmat. Í dag ætlum við að hafa hefðbundna dagskrá og taka því aðeins rólega og safna kröftum fyrir veisludaginn á morgun!
Kær kveðja,
Erla Björg Káradóttir, forstöðukona