Laugardagur til lukku! Það hefur svo sannarlega átt við hér í Ölveri dag. Lukkan og hamingjan hafa svifið hér yfir svæðinu og lagst á hjörtun, okkur til mikillar gleði. Guð hefur verið örlátur á regnið í dag og vökvað svæðið okkar mikið og vel. Svo nú er allur gróður hreinn og fallegur og loftið ferskt og tært. Ölversstúlkurnar láta nú ekki smá rigningu slá sig út af laginu og því hefur margt verið brallað í dag bæði úti og inni.
Morguninn var hefðbundinn að öllu leyti, nema að stúlkurnar fengu að sofa hálftíma lengur og venjulega. Enda veitti þeim ekki af eftir hamagang gærdagsins. Eftir morgunmat, biblíufræðslu og brennó buðu okkar frábæru kokkar uppá lasagna, salat og tilheyrandi.
Eftir hádegishvíldina var farið út í hópavinnu. Stórir hópar fóru í fjallgöngu og leiklist og rest dreifði sér í fótbolta og frjálsa leiki úti í rigningunni. Þegar þessu öllu var lokið var boðið uppá glimmer-súkkulaðiköku og nýbakaðar brauðbollur með smjöri og osti.
Seinnipartur dagsins fór svo í það að útkljá hvaða lið eiga að keppa til úrslita í brennó. Eftir það var bara frjáls tími sem sumir notuðu til að fara í rannsóknarleiðangra út í rigninguna eða voru bara innivið í leik með vinkonum.
Næst þegar blásið var í lúðra var kominn kvöldmatur. Þá fengu stúlkurnar grjónagraut og samlokur með grænmeti. Að matmálstíma loknum var svo hin hefðbundna kvöldvaka þar sem leiklistarhópar dagsins sýndu afrakstur hópavinnunnar. Eftir kvöldvöku tóku svo allir þátt í samsöng við kertaljós þar sem Þóra, sérlegur gítaleikari Ölvers hristi fram úr erminni hvern slagarann á fætur öðrum og allir tóku hressilega undir. Þessi dásamlegi dagur endaði svo á kaffihúsastemmningu þar sem hægt var að fá vöfflur með sultu og rjóma og annað góðgæti.
Þar sem þetta er síðasta nótt stúlknanna í Ölveri þetta sumarið, togast nú á í þeim tilhlökkun yfir því að komast heim til mömmu og pabba og söknuður yfir því að vera að fara heim á morgun og þurfa að kveðja allar nýju vinkonur sínar.
Við sendum kærar kveðjur frá stúlkunum heim til allra ættingja.
Þórey Dögg, forstöðukona.