Veisludagur er runninn upp og stúlkurnar í 3. Flokki Ölvers halda nú brátt heim á leið. Þegar við ræstum þær í morgun mátti heyra kvart og kvein yfir því að þessi dagur væri nú runninn upp. Margar létu þess getið að þær vildu vera hér Alltaf!! Ekki er alveg víst að starfsfólkið gæti haldið það út til eilífðar J
Morguninn hjá þeim var samkvæmt venju að öllu leyti. Mjög spennandi brennóleikur var háður þar sem lið Lady Gaga keppti við vígalega foringjana í Brennó. Skemmst er frá því að segja að foringjarnir unnu við litinn fögnuð stúlknanna J
Í hádeginu var boðið upp á pasta með kjötbollum og rice crispies kökur í eftirrétt. Eftir matinn fóru allir í að pakka dótinu sínu niður og svo fékk hver sem vildi að fara í pottinn og sturtu á eftir. Þegar því var lokið stóðu foringjarnir í röðum og buðu upp á hárgreiðslu fyrir þá sem það vildu. Nú þegar þetta er skrifað eru Stúlkurnar að klæða sig í sitt fínasta púss, snyrta sig og undirbúa sig fyrir veislukvöldverðinn sem hefst kl. 16:30. Maturinn kemur til með að renna vel og ljúflega niður, því þessi aldur er ekki vanur að slá höndinni á móti pizzu og ís.
Eftir máltíðina verður blásið til veislukvöldvöku þar sem foringjar leika leikrit fyrir stelpurnar og viðurkenningar verða veittar fyrir allar þær keppnir sem háðar hafa verið þessa vikuna. Um leið og kvöldvökunni lýkur, eða um 19:00 verður farið að bera dótið út í rútuna og lagt verður af stað frá Ölveri um kl. 19:30. Við munum verða á Holtaveginum í Reykjavík um kl. 20:30.
Þessi vika hefur verið ótrúlega viðburðarrík og skemmtileg fyrir stúlkurnar, þær fara með fjársjóð í hjarta sér heim til fjölskyldna sinna. Allar hafa þær verið prúðar og stilltar og við starfsfólkið erum svo sannarlega stolt af æsku landsins.
Kær kveðja frá Þóru, Öllu, Agnesi, Snædísi, Krissu, Viktoríu, Kötu, Gillu og Þóreyju.

Brottför frá Ölver kl. 19:30
Áætluð koma að Holtavegi 28 er 20:30.
Þórey Dögg Jónsdóttir, forstöðukona.