Föstudagurinn 1. júlí.
Við vöknuðum að venju kl. 9 og borðuðum morgunmat kl. 9:30. Við tók fánahylling, biblíulestur, brennó og hádegismatur. Ráðskonan eldaði fyrir okkur fiskibollur og kartöflur ásamt því að bjóða upp á gúrkur og tómata. Þær borðuðu að venju mjög vel.

Eftir hádegismatinn fóru stelpurnar í Fjársjóðsleit en þá er sumarbústaðahringurinn (fyrir neðan Ölver) genginn og leitað að fjársjóðskistunni sem er einhvers staðar í hringnum. Svo fóru þær í leiki á túnfletinum sem er þarna rétt hjá. Í kaffitímanum var boðið upp á nýbakað bananabrauð með smjöri, gulrótarköku og kanillengjur.

Eftir kaffi var íþróttakeppni og heiti potturinn. Lindarver undirbjó skemmtiatriði fyrir kvöldið. Nokkrar stelpur fengu fastar fléttur í hárið, foringjarnir eru í því að flétta þær eftir sturtuferðir – og á morgnana J Þær eru duglegar að dunda sér og finnst mjög gaman að sitja hjá okkur inni í matsal og perla eða lita.

Í kvöldmatinn fengu þær bleikt og blátt skyr ásamt brauði. Þær borðuðu mjög vel. Eftir kvöldmatinn var svo kvöldvaka í boði Lindarvers og þær skemmtu sér og öðrum mjög vel. Eftir kvöldvöku fengu þær að venju ávexti og fóru svo að tannbursta sig og hátta. Bænakonurnar fóru svo inn á herbergin og byrjuðu að lesa. Eftir að þær höfðu lesið í um 10 mínútur þá var blásið til hörku náttfatapartýs. Það var mikið dansað og sprellað. Við fengum töframenn í heimsókn (foringjar í dulargervi) og svo kom geimvera til okkar með ís (bakari í dulargervi). Á meðan þær borðuðu ísinn fengu þær að heyra brandara og svo klassíska sögu sem endar aldrei! Ótrúlega skemmtilegt. Það voru þreyttar en sáttar stelpur sem fóru að sofa rétt um kl. 23:30. Þær fá svo að sofa hálftíma lengur á morgun.

Takk fyrir okkur,
Þóra Jenny, forstöðukona.