Stúlkurnar voru vaktar klukkan níu í morgun og voru allar mættar í morgunmat hálftíma síðar. Í framhaldi af því var bíblíulestur þar sem fjallað var um Biblíuna og hvernig á að fletta upp í henni. Næst tóku við nokkrir brennóleikir.
Eftir hádegismat var ákveðið að drífa stelpurnar út í smá fjallgöngu sem tók rúman klukkutíma. Stelpurnar voru bæði duglegar og kappsamar að ganga upp hlíðar fjallsins.
Í kaffinu mættu rammvilltir „þýskir túristar“. Þeir töluðu mjög undarlega þýsku, virtust vera að leita að Evróvision söngkeppninni og töldu sig vera vini Sjonna. Þeir héldu að þeir væru komnir á réttan stað þegar þeir heyrðu fallegan stúlknasöng. Þeim var að lokum vísað á réttar slóðir en þeir vildu fá myndir af stelpunum áður en þeir fóru.
Eftir kaffi var stelpunum raðað upp í tröppurnar fyrir framan skálann fyrir myndatöku túristanna en það reyndist vera upphaf af vatnsstríði þar sem þær fengu gusuna yfir sig niður á tröppurnar. Einnig settum við upp plastdúk og bjuggum til rennibraut niður brekkuna sem liggur að lautinni. Þetta vakti mikla kátínu meðal stúlknanna og skemmtu þær sér vel í sólinni í dag.
Á kvöldvöku var mikið hlegið og skemmt sér þar sem stúlkurnar sem gista í Skógaveri fengu að vera með atriði. Eftir kvöldvöku kom inn vitringur sem upplýsti stelpurnar um hvað væri að fara gerast . Þær voru orðnar flóttamenn og þurftu að flýja í flóttamannabúðir. Á leiðinni þangað þurftu þær að finna bónda sem var tilbúinn að gefa þeim mat og upplýsingar en áttu um leið í hættu að vera teknar höndum af hermönnum. Stelpurnar höfðu gaman af og fengu góðar veitingar að leik loknum. Það voru því þreyttar en glaðar stúlkur sem lögðust í bólið í nótt.

Kveðja
Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona