Vikan var fljót að líða. Veisludagur er skyndilega runninn upp og stelpurnar á heimleið. Eftir morgunstund var foringjaleikur í brennó. Vinningsliðið fékk að keppa á móti foringjunum og svo spiluðu allar stelpurnar í einu á móti foringjaliðinu. Mikil kappsemi var í leikjunum en fór þó svo foringjaliðið vann stúlkurnar í báðum leikjunum.
Eftir hádegi var kominn tími á að pakka en svo máttu þær kíkja í pottinn og gera sig fínar fyrir veislukvöld. Það voru fínar stúlkur sem mættu í veislukvöldmatinn og borðuðu pítsu og fengu ís í eftirrétt.
Margar keppnir voru í flokknum eins og hegðunar-, brennó- og hæfileikakeppni. Í lok vikunnar var því sérstök verðlaunastund fyrir þær. Eftir vikuna leyndust margir sigurvegarar í hinum ýmsu greinum. Glaðar héldu þá stúlkurnar á veislukvöldvöku þar sem foringjar sprelluðu og var mikið hlegið. Að lokum þurfti að drífa stelpurnar upp í rútu til að ná á tilsettum tíma hjá húsi KFUM og KFUK á Holtavegi.

Ýmislegt var brallað í ævintýraflokknum, veðrið hefur leikið við okkur alla vikuna og er óhætt að segja að stelpurnar skemmtu sér vel. Þær halda því sáttar og glaðar heim eftir frábæra viku í Ölveri.

Kveðja
Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona