Það voru spenntar og hressar stelpur sem komu í Ölver í dag. Þegar þær voru búnar að koma sér fyrir í herbergjunum sínum var boðið upp á grjónagraut sem þær svolgruðu í sig af bestu lyst. Þar sem flestar stúlknanna eru nýgræðingar í Ölversdvöl var fyrsta gönguferðin farin um svæðið okkar og stúlkunum sýnt allt sem í boði er. Að göngu lokinni fóru þær flestar að leika sér úti í skógi, renna sér í aparólunni eða liggja í risa hengirúminu enda veðrið dásamlegt.
Stúlkurnar eru nú að vinna í því að læra nöfnin hver á annarri og eignast nýjar vinkonur.
Eftir kvöldmat var haldin kvöldvaka þar sem stúlkurnar í Hamraveri stóðu fyrir dagskránni sem samanstóð af þremur frábærum og stórskemmtilegum atriðum.
Að kvöldvöku lokinni var haldið í ból um kl.22 og mig grunar að flestar hafi stúlkurnar farið sáttar að sofa, spenntar að fá að takast á við ævintýrin sem framundan eru.