Það er allt það besta að frétta af okkur hér í Ölveri. Í gær eftir hádegið héldum við „Fáránleika“ þar sem stelpurnar kepptu m.a í kjötbollukasti og skordýrasöfnun. Stelpurnar fóru í einkennisbúninga og bjuggu til slagorð og þarna var það liðsandinn sem skipti mestu máli. Um kaffileytið ákváðum við að hafa svo kósýeftirmiðdag, stelpurnar fóru í pottinn og voru svo með nudd-hárgreiðslu og snyrtistofur inn á herbergjunum. Í kvöldmatinn var gult skyr og kvöldvakan var í boði Hamravers. Þegar stelpurnar voru komnar upp í rúm og tilbúnar að fara að sofa fengu þær gest inn um gluggan sem sagði þeim þær stórfréttir að það væri NÁTTFATAPARTÝ. Þá varð allt vitlaust og stelpurnar skemmtu sér konunglega við að dansa, fara í limbó, horfa á misheppnaða töfrakonu og fá „Popp-geimveru“ í heimsókn. Það var komin ró um miðnætti en stelpurnar fengu að sofa aðeins lengur í morgun og var það vel þegið. Nú hafa þær farið á biblíulestur og í brennó og bíða nú eftir að fá ljúffengan kjúkling í hádegismat. Fleiri fréttir fáið þið svo á morgun….