Í dag er allt komið á fullt hér í Krílaflokki Ölvers. Litlar trítlur vöknuðu milli 8:00 og 8:30 í morgun og taka brosandi og glaðar á móti nýjum degi.
Í gær hófst dagurinn á bilbíulestri þar sem við ræddum um hve dýrmætar við erum í augum Guðs, báðum og sungum. Stelpurnar eru áhugasamar og spyrja margs. Eftir biblíulestur var brennókeppni og að henni lokinni snæddum við kjötbollur. Eftir hádegismat var sannkölluð maraþondagskrá, þar sem við fórum í töluratleik, höfðum hina geysivinsælu hárgreiðslukeppni og enduðum svo á því, fyrir kaffi, að fara í skemmtilega hópleiki allar saman. Eftir kaffi fóru allar í pottinn og léku sér frjálst. Eftir kvöldmat var að sjálfsögðu bráðskemmtileg kvöldvaka þar sem stúlkurnar úr Lindarveri og Hlíðarveri fóru á kostum. Eftir það voru allar reknar í bólið….. en þegar bænakonurnar voru rétt komnar í herbergin ruddust hinar ýmsu furðuverur inn í herbergin og rændu foringjunum. Þetta vakti lukku og voru stelpurnar ekki lengi að þeysast fram á gang til að leita að sinni bænakonu og fórum við því allar saman um húsið þar til við fundum þær, ásamt furðurverunum, á diskóteki uppí sal. Við slógum að sjálfsögðu upp hinu fínasta náttfatapartý, dönsuðum, horfðum á leikþátt og hlustuðum á skemmtilega sögu á meðan við jöpluðum á poppi. Eftir partýið fórum við hver í okkar ból og voru allir sofnaðir fyrir miðnætti.