Hér í Ölveri vorum við vaktar um 9 af grænum furðuverum sem leiddu okkur í morgunmat þar sem okkar beið eiturgrænn hafragrautur eða morgunkorn með grænni mjólk. Eftir morgunmat ætluðum við á fánahyllingu en þá uppgötvaðist að búið var að taka alla skó á svæðinu. Upphófust mikil læti og hamagangur þar til skórnir fundust við heita pottinn okkar. Á biblíulestri lærðum við um Biblíuna og sungum falleg lög. Brennóið var á sínum stað og kepptu öll liðin sinn fyrsta brennóleik. Í hádeginu fengum við svo kjötbollur með grænni kartöflumús áður en við fórum í ævintýragöngu. Í göngunni skrifuðum við ævintýrabréf sem við settum í flösku og földum á svæðinu. Við vonumst að sjálfsögðu eftir því að einhver finni bréfið okkar seinna meir. Þegar við komum heim héldum við að okkar biði kaffi en það var síður en svo. Okkur var skipað inn í matsal og þar tók tollvörður á móti okkur sem sagði okkur að útbúa vegabréf til að komast inn í ævintýraland. Að sjálfsögðu hlýddu allir og fóru spenntir í ævintýralandið þar sem við hittum göldrótta norn, Tímon og Púmba, Trölla, strump og fleiri furðuverur. Í kaffinu fengum við svo að sjálfsögðu græna köku áður en við fórum í íþróttir. Þar kepptum við í húlla og Ölvershlaupi og skelltum okkur svo í pottinn. Eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem Fjallaver sá um að skemmta okkur með skemmtilegum leikritum og leikjum. Eftir kvöldvöku fengu allar stelpurnar boðsmiða í Ölversbíó þar sem við horfðum saman á Narníu og fengum popp. Deginum lauk svo um miðnætti þegar þreyttar stelpur lögðust á koddann.
Við bjóðum góða nótt