Í dag vöknuðum við í Ölveri í glaðasólskini.  Á biblíulestri lærðum við um mikilvægi þess að þakka Guði fyrir allt það sem hann hefur gefið okkur.  Við hlustuðum á sögu um þakkarkörfuna og ákváðum að fylla okkar eigin þakkarkörfu.  Brennóið var á sínum stað og í hádegismat fengum við grænmetisbuff og kartöflubáta.  Eftir hádegi voru Ölversleikarnir þar sem stelpurnar kepptu í kjötbollukasti, gúrkuspjótkasti, boðhlaupi, cheeriosþræðingu, skordýratýnslu og fleiri furðugreinum.  Eftir kaffi var svo hellirigning og skelltum við okkur því í pottinn og föndruðum.  Kvöldvakan var skemmtileg og fjörug eins og alltaf, en það var Lindarver sem sá um fjörið.  Eftir kvöldvöku og kvöldkaffi fóru allir í háttinn en fljótlega varð allt vitlaust í húsinu, þar sem einum foringjanum var rænt af tveimur mönnum sem tóku hana og skelltu henni ofaní ruslatunnu og keyrðu með hana í burtu.  Stelpurnar urðu skelkaðar.  Mennirnir skildu eftir bréf með leiðbeiningum um það hvernig við gætum náð foringjanum til baka.  Við að sjáflsögðu fylgdum því  samviskusamlega og fundum foringjann hér fyrir utan Ölver bundna við á höndum og fótum með límband fyrir munninum. Þegar við náðum að losa hana öskraði hún náttfatapartý…. og við það spruttu út mikil fagnaðarlæti.  Við dönsuðum svo og skemmtum okkur fram á nótt.  Það voru því þreyttar og sælar stelpur sem lögðust á koddann sinn um miðnætti.  Starfsfólkið situr svo og undirbýr ævintýri morgundagsins fyrir þessar flottu stelpur.

Kveðja úr Ölveri

Petra Eiríksdóttir