Nú er síðasti dagurinn runninn upp hér í Ölveri. Dagurinn hefur verið rólegur og góður. Stelpurnar voru þreyttar í morgun enda búnar að vera á fullu síðan þær komu. Eftir morgunmat fórum við á Biblíulestur og rifjuðum upp það sem við höfum lært í vikunni og vorum að syngja þegar foringjarnir ruddust inn á okkur og tóku okkur út í íþróttahús. Þar keppti sigurliðið í brennó við foringjana og að sjálfsögðu sigruðu foringjar. Keppnin hélt svo áfram þar sem foringjarnir kepptu við allar stelpurnar og sigruðu auðvitað þann leik líka. Í hádeginu borðuðum við súpu og brauð áður en við fórum í pottinn. Stelpurnar klæddu sig upp og voru komnar í veisludressið áður en þær drukku kaffi. Seinnipartinn skelltum við okkur svo í ratleik meðan foringjarnir skreyttu veislusalinn og lögðu á borð. Verðlaunaafhending var svo fyrir mat þar sem allar þessar flottu og hæfileikaríku stelpur sópuðu til sín verðlaunum. Fyrir afrakstur í íþróttum, hárgreiðslu, söngvakeppni, mesta draslið o.s.frv. Kvöldvakan okkar er svo að hefjast þar sem starfsólkið mun fara á kostum með leiktilþrifum sínum og söng.
Við í Ölveri þökkum fyrir ,,lánið“ á stelpunum. Þær eru ofboðslega flottar og duglegar og það gefur okkur mikið að starfa með þeim. Hlökkum til að sjá þær næsta sumar J
Ölverskveðja
Petra, Agnes, Inga Hrönn, Ingibjörg, Snædís, Unnur Rún, Aníta, Kata og Gilla