Stúlkurnar voru vaktar kl. 9 og þeirra beið morgunmatur kl. 9:30. Við erum með fánahyllingu á hverjum morgni ef það er ekki of mikið rok og eftir morgunmatinn var fyrsta fánahylling flokksins.
Á biblíulestri lærðu þær um góðverk og þær voru hvattar til að gera góðverk á meðan við dveljum hér. Eftir biblíulestur var brennókeppnin og að því loknu var steiktur fiskur og kartöflur í matinn.
Stúlkurnar fóru í fjallgöngu eftir hádegið og skemmtu sér vel. Afmælisbörnin í gær og í dag, María 12 ára og Kristrún Lilja 10 ára fengu að blása á kerti á afmælisköku í kaffinu. Einnig fengu þær nýbakaðar bollur, lummur og bananabrauð. Eftir kaffi var íþróttakeppni þar sem þær hoppuðu á einar (öðrum fæti) og köngulóarhlaup. Þær fóru að því loknu í pottinn og Skógarver og Fuglaver æfðu leikrit fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmat var grjónagrautur og þær borðuðu mjög vel af honum. Kvöldvakan gekk mjög vel fyrir sig og stelpurnar skemmtu sér vel. Þær fengu ávexti í kvöldkaffi og bænakonurnar sátu og lásu eða spjölluðu við þær áður en þær báðu kvöldbænirnar.