Tíminn er svo ótrúlega fljótur að líða hérna. Nú eru stelpurnar búnar að vera hjá okkur í 4 daga og bara þrír eftir!
Morgunninn var tiltölulega hefðbundinn, vakning kl. 9, morgunmatur, fánahylling, biblíulestur, brennó og hádegismatur. Eftir hádegismatinn var svokallaður ævintýragangur en þar mættu þær til dæmis norn sem var að brugga seiði til að gefa Justin Bieber, Harry Potter var einnig á svæðinu og svo áttu þær að skreyta jólatré en Grinch kom svo og stal jólatrénu. Þá fóru þær upp á efri hæðina og hittu strump sem kenndi þeim strumpadans. Þær skemmtu sér mjög vel.
Við sáum til sólar í fyrsta skipti síðan við komum hingað og það var alveg ótrúlega hlýtt og gott veður hjá okkur. Í tilefni af því var Ölvers-víðavangshlaupið en þá hlaupa þær hring í sumarbústaðahverfinu hérna fyrir neðan. Þær fóru svo í pottinn og í boði var að fara í sturtu fyrir þær sem ekki vildu fara í pottinn. Lindarver æfði atriði fyrir kvöldvökuna.
Þær urðu mjög glaðar með að fá skyr og brauð í kvöldmatinn og borðuðu ekkert smá vel! Við fengum litla tík í heimsókn, hún hafði ráfað til okkar og stelpurnar voru mjög spenntar yfir tíkinni og þær vildu sko allar eiga hana og taka hana með heim! Okkur tókst að lokum að koma henni í réttar hendur.
Kvöldvakan var á sínum stað og þema hennar var furðuföt. Lindarver skemmti hinum stelpunum með leikriti og leikjum. Eftir kvöldvökuna fóru stelpurnar niður og fengu ávexti og fóru að hátta en þegar þær voru á leið upp í rúm blésu foringjarnir til náttfatapartýs! Þar var mikið fjör og mikið gaman, skemmtiatriði frá foringjum, mikið dansað og mikið hlegið. Þær fengu svo ís í lokin á partýinu. Þær skemmtu sér vel en voru orðnar mjög þreyttar. Það voru glaðar og ánægðar stúlkur sem fóru að sofa fyrir um hálftíma síðan. Þær fá að sofa aðeins lengur í fyrramálið 🙂
Bestu kveðjur úr Ölveri,
Þóra Jenny, forstöðukona.