Hér vöknuðu stúlkurnar við það að bænakonurnar komu inn og lásu fyrir þær og báðu kvöldbænirnar. Dagurinn í dag var öfugur!
Eftir bænaherbergið fóru þær fram og fengu kvöldkaffi, heitt kakó og brauð. Svo undirbjó Hlíðarver skemmtiatriði fyrir kvöldið og stuttu seinna var blásið til kvöldvöku. Eftir kvöldvökuna var kvöldmatur sem hefði átt að vera hádegismatur.
Stelpurnar fóru svo í íþróttakeppni og pottinn og fengu að því loknu kaffitíma. Þá var haldið í gönguferð niður að á og eftir hana var lokakeppni brennókeppninnar. stúlkurnar fengu svo grjónagraut í kvöldmat og eftir matinn var fánahylling og biblíulestur. Eftir biblíulesturinn var ævintýraratleikur þar sem þær hittu ýmsar skemmtilegar verur eins og klikkaðan vísindamann, Aríel, Þyrnirós, Sjóræningja og Charlottu Perelli (eurovision-stjarna). Piparkökukallinn mætti einnig á svæðið.
Eftir ratleikinn fengu þær morgunmat (ávexti) og fóru svo inn í herbergi að hátta. Bænakonurnar fóru svo inn á herbergin til að lesa og spjalla. Nokkrum stelpum fannst ruglandi og asnalegt að vera að snúa deginum svona en flestum þótti þetta samt skemmtilegt. Það er gaman að breyta útaf vananum og gera eitthvað nýtt en eitt er víst að veisludagur verður eins venjulegur og hægt er! 🙂
Við sendum bestu kveðjur úr Ölveri og stelpurnar hlakka mikið til að hitta foreldra sína á morgun.
Þóra Jenny, forstöðukona.