Nú er síðasti venjulegi dagurinn okkar að renna sitt skeið. Hann hefur gengið mjög vel og stelpurnar eru ótrúlega glaðar og ánægðar.

Við vöknuðum kl. 8:30 eins og venjulega og það voru þónokkuð margar sem voru enn sofandi þegar ég fór og vakti þær. Morgunmaturinn var á sínum stað kl. 9 og eins fánahyllingin, biblíulesturinn og brennóinn. Í hádegismatinn fengu þær kjúklingarétt sem stelpurnar borðuðu vel af.  Eftir hádegismatinn var Ölvershlaupið okkar en þá er hlaupinn hringur í kringum bústaðahverfið. Þær stóðu sig vel. Þær fengu nýbakað bakkelsi og bananabrauð í kaffinu og eftir kaffi fór helmingurinn af hópnum í pottinn og sturtu. Hinar stúlkurnar skemmtu sér bæði inni og úti.

Stúlkurnar fengu skyr í kvöldmatinn og voru ótrúlega ánægðar með það. Þær borðuðu mjög vel. Kvöldvakan var sjúklega stutt eða bara tvö lög og hugleiðing og þær voru sendar niður í ávexti. Þær skildu ekkert í því að kvöldvakan var svona stutt en við blésum mjög fljótlega og buðum þeim í bíó á sýninguna Hefðarfrúin og umrenningurinn (The Lady and the Tramp). Myndin var búin um kl. 22 og þá fóru þær niður að tannbursta og pissa. Bænakonurnar fóru inn á bænaherbergin og lásu fyrir þær.

Við sendum bestu kveðjur til allra foreldranna og hlökkum til að hitta þá á morgun 🙂

Þóra Jenny, forstöðukona.