Það voru 45 glaðar stúlkur sem komu upp í Ölver í hádeginu í dag, tilbúnar til að njóta ævintýranna sem skipulögð verða fyrir þær í komandi viku.

Stelpunum var raðað í herbergi og það er sofið í hverju einasta rúmi í húsinu núna 🙂 Eftir að þær komu sér fyrir fengu þær sveppasúpu og brauð í hádegismatinn. Eftir matinn fóru foringjarnir með þær í göngu um svæðið ásamt því að fara í nafnaleiki og fleiri skemmtilega leiki á fótboltavellinum okkar.

Eftir kaffi var íþróttakeppnin á sínum stað og æfingaleikir í brennó því þær fá ekki að vita hvernig liðin skiptast fyrr en í fyrramálið. Það er líka alltaf voða spennandi að fá að vita hvað brennóliðin heita og það verður líka gefið upp á morgun. Í kvöldmatinn fengu stúlkurnar svo steiktan fisk, kartöflur, gúrkur og tómata. Þær borðuðu mjög vel 🙂

Hamraversstúlkur sáu um skemmtiatriðin á kvöldvökunni og það gekk mjög vel hjá þeim. Eftir að hafa sungið þessi helstu Ölverslög fengu þær að heyra sögu úr Biblíunni og sungu kvöldsönginn okkar. Þeirra beið appelsínur og epli í matsalnum auk bíómiða en við buðum þeim í „bíósalinn“ okkar á stórmyndina Mamma Mia! Myndin var að klárast og núna eru bænakonurnar inni hjá þeim til að koma þeim í ró!

Við sendum bestu kveðjur heim! Myndirnar koma fljótlega inn.
Þóra Jenny, forstöðukona.