Nú er langur og skemmtilegur dagur að renna sitt skeið. Dagurinn byrjaði mjög hefðbundið, með morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri en á biblíulestrinum voru stúlkurnar þátttakendur í skírn bangsa.

Við ræddum einnig um góðverk og að Guð vill að við séum góðar og lýsum þannig fyrir hann. Biblíulestrinum lauk með áskorun um að hver og ein okkar ætti að gera góðverk og gleðja þannig næsta mann. Það hefur gengið ágætlega og þær fá áminningu um að halda þessu áfram á morgun. Eftir biblíulesturinn fóru þær út í brennó og komust að því í hvaða liðum þær eru og hvað þau heita 🙂 Í þessum flokki heita liðin Humar, Kræklingur, Ígulker, Marglytta, Sæhestur og Kuðungur. Eftir brennóinn þá var hádegismaturinn á dagskrá.

Eftir matinn var farið í fjallgöngu og það gekk mjög vel. Sólin skein en Kári vinur okkar blés aðeins á okkur. Þær tóku svo vel til matar síns í kaffinu enda snilldarbakarar sem vinna hérna hjá okkur. Eftir kaffi var farið í Orrustu (e. Battle) en það er einhvers konar boltastríð með 200 litlum boltum. Skógarversstúlkur undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna og þrjú herbergi fóru í pottinn og sturtu.

Þær fengu grjónagraut og heimabakað brauð í kvöldmatinn og gerðu honum góð skil. Kvöldvakan var á sínum stað, við sungum fullt af skemmtilegum lögum, horfðum á skemmtiatriðin og heyrðum söguna um hann Sakkeus. Stelpurnar fengu svo ávexti í kvöldkaffi og núna eru bænakonurnar komnar inn á herbergin og eru að lesa eða eru í leikjum með þeim. Planið, þegar bænaherbegjum líkur, er að foringjarnir setjast fram á ganginn og syngja stúlkurnar í svefn.

Við sendum bestu kveðjur heim.
Þóra Jenny, forstöðukona.