Komið þið heil og sæl! Í dag var bleikur dagur hjá okkur og það var mjög gaman að horfa yfir hópinn.

Nú er viðburðaríkur dagur að kvöldi kominn og stúlkurnar allar lagstar inn í rúm og bænakonurnar eru inni hjá þeim.

Þær fengu að sofa hálftíma lengur vegna náttfatapartýsins í gærkvöldi og voru ánægðar með það. Dagskráin frestaðist því um hálftíma alveg þangað til í kaffitímanum. Morgunninn okkar var hefðbundinn,morgunmatur, fánahylling, biblíulestur og brennó. Hádegismaturinn rann ljúflega niður og eftir kaffi var farið í ævintýraratleik, þar sem markmiðið var að hjálpa Aríel hafmeyju að finna draumaprinsinn sinn. Þær  hittu á leiðinni vísindamann sem lét þær velja á milli tveggja töfraseiða, annar lagði álög á eina í hópnum en hinn gerði ekkert nema gott. Svo hittu þær grísling sem kenndi þeim dansmúv og tók álögin af (ef þær völdu rangan drykk). Þær hittu líka Þyrnirós, Úrsulu (vondu nornina í Litlu hafmeyjunni) og Piparkökukallinn áður en þær náðu að finna draumaprinsinn. Þær skemmtu sér vel í leiknum og höfðu mjög gaman.

Kaffimatnum var svo rænt af nokkrum óprúttnum foringjum en þær fóru með bakkelsið í laut sem við eigum inni skóginum. Þar borðuðum við samlokur með pítusósu og káli, kanilsnúða með appelsínugulum glassúr og appelsínugula appelsínuköku – bleiki matarliturinn var búinn 🙂 Eftir kaffi var íþróttakeppnin á sínum stað ásamt því að Fjallaver og Lindarver undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldið.

Í kvöldmatinn fengu stelpurnar svo regnbogaskyr en það var litað með grænum og bláum matarlitum og heimabakað brauð. Þær borðuðu mjög vel. Kvöldvakan var svo á sínum stað með skemmtiatriðum frá áðurnefndum herbergjum og svo fengu þær að heyra hugleiðingu um hæfileika út frá Guðs orði. Svo þegar hugleiðingin var búin þá voru þær sendar út í laut í smá kvöldleik. Nokkrar stúlkur urðu svolítið hræddar enda eru þær orðnar frekar þreyttar en við enduðum á því að grilla sykurpúða og fórum svo inn í hús þar sem þær fengu ávexti áður en þær fóru inn að hátta. Bænakonurnar fóru mjög fljótt inn til þeirra og voru hjá þeim þangað til þær voru sofnaðar. Það fór allt vel að lokum og allir fóru sáttir að sofa.

Það ætti að koma tvöfaldur skammtur af myndum inn í kvöld því það gleymdist í öllum náttfatapartýshasarnum að setja þær inn í gærkvöldi.

Við sendum bestu kveðjur heim.
Þóra Jenny, forstöðukona.