Hér í Ölveri hefur allt iðað af lífi á þessum fyrsta degi Ævintýraflokks unglinga. 25 kátar og eftrvæntingafullar stúlkur fylltu staðinn gleði og ljóst er að vikan okkar verður allt annað en róleg.
Eftir að búið var að raða í herbergin, var vel borðað af súpu og smurbrauði áður en farið var í rannsóknarleiðangur um landareignina umhverfis sumarbúðirnar og farið í leiki. Eftir kaffi var ýmislegt brallað og stúlkurnar í Fjallaveri æfðu atriði fyrir kvöldvökuna. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá kvöldvökunni. Fiskur í raspi ásamt bökuðum kartöflubátum og grænmeti hvarf sem dögg fyrir sólu í kvöldmatnum.
Eðlilega var mikil spenna í stúlkunum á fyrsta degi og alveg ljóst að þær færu ekki snemma að sofa. Eftir kvöldvökuna fengu þær því að horfa á mynd áður en þær fylgdu bænakonum sínum inn á herbergi þar sem eftir samtal og bænir komst ró á og að lokum fóru allar að sofa.
Þakka góðum Guði fyrir þessar góðu og vel gerðu stúlkur og bið þess að vikan gangi vel og við finnum allar að það sem raunverulega skiptir máli er vináttan og kærleikurinn.
Ása Björk, forstöðukona í 10. flokki.