Fjölbreytileiki mannlífsins og litagleði var þema dagsins. Eftir morgunverð og fánahyllingu, var Biblíulestur sem að þessu sinni fjallaði um sýn Krists á okkur, börn Guðs. Við fjölluðum um syndina og það hvernig Kristur tók á sig syndir mannkyns. Ég skrifaði þær syndir sem okkur komu til hugar, á egg. Þegar ekki var hægt að skrifa meira á eggin, voru syndirnar og það harða fjarlægt með því að brjóta skurnina af. Eftir voru mjúk og hrein eggin. Stúlkurnar eru svo skemmtilega meðvitaðar um heiminn og það sem er að gerast í lífi fólks, þannig að þær tala um mannréttindabrot út frá ýmsum sjónarhornum, t.d. fangelsun.
Eftir hamborgarahádegismat sagði sjálfboðaliðinn okkar, hún Lena frá Úkraínu, okkur frá landinu sínu og sýnd okkur nokkur myndskeið bæði frá sögu landsins og menningu. Stundina endaði hún síðan með því að kenna okkur þjóðlega dansspor og var mikill hamagangur í salnum!
Í drekkutímanum voru kökur í öllum regnbogans litum. Eftir hann skreyttu stelpurnar matsalinn fyrir veislukvöldið og höfðu sig síðan til. Það voru prúðbúnar stúlkur sem mættu í dýrindis pízzuveislu.
Á kvöldvökunni var mikið sungiðð og foringjarnir sáu um nokkur bráðfyndin leikrit. Hugleiðingin var um það hve mikilvægt er að við, sem limir á líkama Krists, nýtum þá hæfileika sem Skaparinn ehfur gefið okkur og einnig að við leyfum öðrum að njóta þeirra.
Súsanna og Írena voru búnar að baka og útbúa kaffihúsastemningu í matsalnum og voru enn fleiri kökur og ýmist fínerí í boði. Eftir bænaherbergi komst loks ró á í húsinu og uppgefnar en alsælar stúlkur að sofna.
Það er varla hægt að hugsa sér betri starfsmannahóp, en hér er allt gert til þess að gera dvölina sem eftirminnilegasta og einnig er nauðsynlegt að kenna bæði þá siðfræði sem Kristur hefur kennt okkur og einnig gefast mörg tækifæri til að takast á við unglingshegðun og tillitssemi, því allar viljum við koma sterkari frá þeim árum og með jákvæða sjálfsmynd. Ég trúi því að þessi vika hafi áhrif á þroska stúlknanna og þá er mikið unnið.
Með kærleikskveðju úr Ölverinu yndislega.
Ása Björk, forstöðukona.