Það voru blendnar tilfinningar í brjóstum stelpnanna okkar við vakningu í morgun. Eftir morgunverðinn skiptum við okkur í hópa til undirbúnings guðsþjónustunnar; danshóp, sönghóp og bænahóp. Síðan hófst hin ofurspennandi foringjakeppni, þar sem sigurlið flokksins í brennóbolta keppir við foringja flokksins, sá síðarnefndi vann. Þá kepptu foringjarnir einnig við allan hópinn og unnu með því að hver foringi átti fleiri líf.
Eftir dásamlegan tómatfisk og kartöflur í hádegismat, pökkuðu stúlkurnar dótinu sínu og síðan var blásið til guðsþjónustu. Bein þátttaka hverrar stúlku var mjög dýrmæt og nutu þær stundarinnar. Hugleiðing mín varð mun lengri en venjan er, vegna þess hve stelpurnar voru áhugasamar að ræða um réttlæti og óréttlæti heimsins og höfðu allar bæði gagn og gaman af. Eftir guðsþjónustuna var að sjálfsögðu messukaffi með kaffihúsastemmningu.
Eftir að öll herbergi voru orðin tóm og snyrtileg, var frjáls tími útivið og einhverjar stúlkur fengu hárgreiðslu af ýmsu tagi.
Í kvöldmatinn voru pylsur í pylsubrauði og lokakvöldvakan var óskaplega fjörug – mikið sungið. Allar stúlkur komnar í rútu og við tilbúnar að leggja af stað í bæinn!
Þetta er búin að vera mjög dýrmæt vika og er það ósk okkar og von að stúlkurnar taki héðan gott veganesti inn í nánustu framtíð.
Með kærleiksríkri Ölverskveðju,
Ása Björk, forstöðukona 10. flokks.