Þriðjudaginn 16. apríl var fyrsti námskeiðsdagur fyrir starfsfólk sumarbúðanna 2013. Um fjörtíu starfsmenn úr öllum sumarbúðum félagsins komu saman og meðal efnis þennan fyrsta dag var fræðsla um það hver við erum og hvað við boðum. Þá voru kenndir ýmsir leikir sem henta í sumarbúðastarfi bæði inni og úti. Farið var í gegnum fræðslusamveru úr handbókinni Kompás sem ber heitið Sköpum tengsl, en í þeirri æfingu þurfa þátttakendur að velta fyrir sér hvaða skyldur og hlutverk hvíla á ólíkum hópum sem koma að sumarbúðastarfi með einum eða öðrum hætti. Skipt var upp í fjóra hópa sem voru: fulltrúar foreldra, fulltrúar sumarbúðabarna, fulltrúar starfsfólks og fulltrúar stjórna. Eftir vangaveltur um hlutverk og skyldur hópanna var unnið með kröfugerð og samninga á milli hópa og ljóst að það er að mörgu að hyggja þegar kemur að rekstri sumarbúða og þeirri viðleitni okkar að allt gangi vel fyrir sig og að allir séu ánægðir með sinn hlut. Námskeiðið heldur áfram í dag, miðvikudag, og snýr fræðsla dagsins meira að því hvernig við getum sem best tryggt öryggi og vellíðan barna í sumarbúðum.

Myndir frá námskeiðinu má skoða hér : http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157633267422332/