Það voru mjög hressar stelpur sem mættu hingað uppeftir í gær!  Eftir að þær voru búnar að koma sér vel fyrir og skoða sig um fengu þær súpu og brauð. Að því loknu ákváðum við að nota góða veðrið og við fórum í göngu niður að á. Sumar tóku það alla leið og syntu á sundfötunum einum í ískaldri ánni á meðan aðrar bleyttu stígvélin sín það mikið að þær komust jafnvel ekki úr þeim!

Þá var gott að koma heim og fá nýbakaðar bollur, kanilsnúða og súkkulaðiköku. Eftir kaffi fóru þær út í leikskála í brennó og leiki og léku sér úti. Í kvöldmatinn voru kjötbollur. Þá var kvöldvaka þar sem eitt herbergið sá um að skemmta. Eftir kvöldvöku hófst mikil bænakonuleit þar sem hvert herbergi þurfti að leita að sinni bænakonu og fylgja ákveðnum vísbendingum. Sáttar og sælar fór þær í rúmið og komin var ró um miðnætti.

Í dag var vakið kl.9 og fengu þær sér morgunmat. Þá var fáninn hylltur og eftir tiltekt var farið á biblíulestur. Þar lærðu þær að flett upp í Nýja testamentinu og lærðu um mikilvægi þess að vera ljós í lífi annarra, sýna öðrum væntumþykju og kærleika.

Í hádegismatinn var steiktur fiskur og nú eru þær allar niðri í laut að hanna kjóla, mála og skreyta næsta Ölvers Top Model :O)