Héðan er allt mjög gott að frétta. Gærdagurinn var alveg frábær. Eftir Survivor Africa var kaffi, íþróttakeppni og pottur. Um kvöldið var skemmtileg kvöldvaka en þegar henni lauk kom óvæntur gestur í heimsókn. Það var mjög raunarmædd flóttakona sem tilkynnti stelpunum að þær yrðu að flýja vegna þess að hermennirnir væru að koma. Stelpurnar hlupu allar öskrandi út, sumar á sokkunum! og hlupu út í skóg. Hræðilegir hermenn eltu þær og reyndu að ná þeim til að setja þær í fangabúðir. Eina von þeirra var að finna bóndann sem átti mat og lykilorðið að flóttamannabúðunum. Þessi leikur heppnaðist ótrúlega vel og sluppu allir ómeiddir (nema sumir þurftu aðeins að koma við í sjúkraskýlinu) og enduðu stelpurnar inni í matsal og fengu heitt kakó.
Í morgun var vakið að vana kl.9, þær hylltu fánann, reyndar bara í öðrum skónum því Ölversskrímslið var búin að taka hinn! Þá var blásið í Biblíulestur og lærðu stelpurnar söguna um Miskunnsama Samverjann og tvöfalda kærleiksboðorðið sem býður okkur að elska Guð og náunga okkar.
Nú eru þær úti í sólinni í skemmtilegum ratleik.
Fleiri fréttir munu berast á veisludag sem er á morgun ;O)