Við höfum verið netsambandslaus síðastliðinn sólarhring en nú er þetta vonandi komið.
Ferðin upp í Ölver gekk vel, byrjað var á því að fara yfir nokkrar helstu reglur staðarins og síðan raðað niður í herbergi, allar vinkonur fengu að sjálfsögðu að vera saman í herbergi. Þegar allar voru búnar að koma dótinu sínu fyrir var hádegismatur, brauð og aspassúpa. Eftir mat var farið upp í íþróttahús og fyrstu liðin kepptu í brennó, foringjar höfðu skipt niður í jöfn lið og nefndu þau eftir Simpsons persónunum, Hómer, Bart, Marge, Maggie, Lisa, Millhouse og Mr. Burns. Kaffitíminn var með Ölvers bollum og skúffuköku og eftir þá hressingu var farið í göngutúr um svæðið, hliðið skreytt með litríkum blöðrum jafnvel þó veðrið hafi ekki brosað við okkur. Kvöldvakan var á sínum stað og fékk Skógarver að vera með leikrit og stjórna leik, eftir kvöldvöku voru epli í boði og að lokum fékk hvert herbergi vísbendingar sem þær áttu að fara eftir til að finna bænakonuna sína. Ró var komin á um miðnætti.


Í morgun vakti sólin okkur og brosti við okkur megnið af deginum. Eftir morgunmat og fánahyllingu var farið á biblíulestur þar sem þær lærðu að fletta upp í nýja testamentinu. Eftir brennókeppni var farið í hádegismat, hakkbollur og kartöfubátar ásamt grænmeti. Eftir það fengum við okkur göngutúr upp að steininum í fjallinu. Síðan var haldin hárgreiðslukeppni og þar sem veðrið var svo dásamlegt fóru allar stelpurnar aðeins í pottinn. Í kvöldmatinn var boðið upp á brauð og regnbogaskyr. Strax eftir matinn fórum við upp í íþróttahús og dönsuðum Zumba, við höfðum fengið heimsókn frá „ólympíuhöfum“ í Zumba og þær kenndu okkur dansana. Að lokum fórum við á kvöldvöku þar sem Fuglaver sá um skemmtiatriði nú stuttu fyrir miðnætti eru þær flestar sofnað en þó ekki allar.

Bestu kveðjur til ykkar frá okkur öllum í Ölveri.

Ps við komum heim á sunnudaginn ekki föstudaginn eins og einhverjar hafa haldið.