Við byrjuðum daginn í gær á að syngja afmælissöng fyrir einn foringjann sem varð 20 ára. Á biblíulestrinum fengu stelpurnar að sjá myndir og heyra um verkefnið Jól í skókassa þær voru mjög áhugasamar um það og fannst gaman að sjá allar myndirnar. Eftir hádegis mat sem var kjúklingur í kornflexi þá var farið í seinni hlutann á stöðvunum, blöðrurnar, andlitsskreytingin, sápukúlurnar og sirkusinn allar skemmtu sér vel og voru mjög ánægðar. Þegar kom að kaffitímanum þá fengu allar stelpurnar eina köku hver sem þær áttu að skreyta andlit á þegar allar voru búnar að skreyta þá mátti hver og ein borða sína köku. Eftir kaffið fengum við heimsókn. Helga Vilborg, kristniboði til margra ára, kom á svæðið og sagði stelpunum frá Kristniboðinu sýndi þeim myndir og ýmsa hluti frá Afríku. Einnig kenndu hún þeim nokkra söngva. Kvöldmaturinn hafði upp á sveppasúpu og brauð að bjóða. Eftir matinn var kvöldvaka þar sem bæði Hamraver og Hlíðaver sáu um atriðin. Í dag fengu stúlkurnar í Fjallaveri að vera með atriði á biblíulestrinum þar sem í kvöld er veislukvöld og þá eru foringjarnir með atriðin á kvöldvökunni. Eftir hádegismatinn sem var grjónagrautur og brauð var haldin hæfileikakeppni sem mjög margar tóku þátt í. Eftir kaffið er stefnt á að allar fái að fara í pottinn og geri sig síðan fínar áður en veisluhöldin hefjast. Sólskins knús frá okkur, hlökkum til að sjá ykkur á morgun.