Heil og sæl.

Dagurinn hjá okkur var ósköp hefðbundinn. Ég fór á stjá til að vekja kl. 9:00 en þá var hver ein og einasta stúlka vöknuð og orðnar heldur svangar.Þær fengu morgunmat og fóru svo út á fánahyllingu, það er fastur liður þegar það er ekki of mikið rok. Þær tóku svo til í herbergjunum sínum fyrir hegðunarkeppnina. Á biblíulestrinum fengu þær fræðslu um sr. Friðrik Friðriksson, stofnanda KFUM og KFUK. Þær hlustuðu af athygli og sungu eins og englar. Foringjarnir voru með brennókennslu úti í íþróttahúsi eftir biblíulesturinn. Ráðskonan okkar eldaði steiktan fisk og kartöflur í hádegismatinn sem rann ljúft niður, þvílíkt sem þær borða vel.

Hér nýttum við veðrið einsog hægt var áður en vonda veðrið á að skella á í nótt/fyrramálið. Við fórum í fjallgöngu og nánast allar fóru upp að steininum í fjallinu okkar. Það gekk mjög vel og þeim fannst gaman. Þær fengu nýbakað bananabrauð, pizzasnúða og lummur í kaffitímanum og þær borðuðu mjög vel og margar vildu meira! Stígvélaspark og pokahlaup voru íþróttagreinar dagsins og þær stóðu sig allar með prýði. Seinnipartinn var boðið upp á Actionary og perlur með foringjunum. Hamraver gat þót ekki stoppa lengi við það því þær þurftu að æfa leikrit fyrir kvöldvökuna.

Eftir kvöldmatinn var kvöldvakan og Hamraversskvísur skemmtu með tveimur leikritum og einum leik. Þær stóðu sig með prýði! Þær heyrðu svo hugleiðingu um þakklæti. Eftir kvöldvöku fá þær alltaf ávexti og fara svo að hátta og tannbursta. Bænakonan fer inn til þeirra og les fyrir þær nokkra kafla úr bók. Það hjálpar þeim að ná sér niður og komast í ró fyrir svefninn. Bænakonurnar eru inni á herbergjunum núna og alveg ró í húsinu 🙂

Myndir koma inn á eftir!

Þóra Jenny, forstöðukona.