Heil og sæl!

Forstöðukonan svaf hressilega yfir sig í morgun og því voru börnin ekki vakin fyrr en 20 mínútur yfir 9. Stelpur í einu herbergi voru vaknaðar en aðrar voru í fasta svefni. Þær flýttu sér að klæða sig og bursta tennur svo að morgunmaturinn gæti hafist. Það var engin fánahylling í dag vegna veðurs. Það er alveg ómögulegt að flagga ef það er mikið rok. Við gerðum ráð fyrir heilum innidegi í dag, miðað við hvernig veðrið var í nótt og í morgun. Við létum þó renna í pottinn svo þær gætu farið í hann seinnipartinn.

Á biblíulestrinum lærðu þær um Biblíuna, þær hlustuðu af athygli og lærðu svo að fletta upp í nýja testamentinu. Það gekk mjög vel. Fyrsta brennókeppnin var svo í morgun. Liðin eru fjögur og heita Tinky Winky, Dipsy, Lala og Po. Í hádegismat var lasagna og hvítlauksbrauð ásamt salati. Þær borðuðu mjög vel og einhverjar höfðu á orði að svona heimatilbúinn matur væri bestur 🙂

Eftir matinn var hæfileikakeppni. Við fengum að sjá mörg skemmtileg atriði og foringjarnir léku þýska dómara sem komu í heimsókn ásamt gælubeljunni sinni. Þær  vöktu mikla lukku.

Eftir kaffi var íþróttakeppni og svo heitur pottur. Veðrið skánaði mjög mikið og það var nánast logn og sól hjá okkur seinnipartinn í dag. Flestar fóru í pottinn í dag og svo í sturtu. Hlíðarver undirbjó skemmtiatriði fyrir kvöldið ásamt bænakonunni sinni. Í kvöldmatinn var kakósúpa og brauð og þær borðuðu ótrúlega vel! Kvöldvakan var á sínum stað og Hlíðarver sá um að skemmta hinum. Það gekk mjög vel og var ótrúlega flott. Í hugleiðingunni fengu þær að heyra að þær væru dýrmæt sköpun Guðs. Þær fengu svo ávexti áður en þær fóru að hátta og tannbursta. Bænakonurnar eru að lesa fyrir þær í þessum skrifuðu orðum.

Ég vona að okkur takist að setja myndirnar inn í kvöld eða fyrramálið.

Þóra Jenny, forstöðukona.