Komið þið sæl!

Dagurinn í dag hefur gengið mjög vel, morgnarnir eru yfirleitt eins hjá okkur, vakning kl. 9, morgunmatur hálftíma síðar og fánahylling. Á Biblíulestri fræddi ég stelpurnar um Jesú og allt það sem hann gerði og allan hans kærleika til mannanna. Þær fóru svo í brennó og úrslitin eru ljós. það var liðið Lala sem vann brennókeppnina og fær að keppa við foringjana á brottfarardegi. Í hádegismat var plokkfiskur og heimabakað rúgbrauð ásamt grænmeti.

Eftir hádegi fórum við niður að á og fengum alls konar veður þann tíma sem gönguferðin stóð yfir. Hellirigningu í smástund, sól í smástund, aftur rigningu og aftur sól. Þeim fannst samt gaman en það var engu að síður mjög gott að koma aftur hingað upp í Ölver og fá heitt kakó í kaffitímanum.

Eftir kaffi var íþróttakeppni og að þessu sinni kepptu þær í spretthlaupi og köngulóarhlaupi í íþróttahúsinu. Þær fóru svo í pottinn og dömurnar í Hamraveri undirbjuggu leikrit fyrir kvöldið.

Eftir kvöldmat var svo kvöldvakan þar sem Skógarver skemmti hinum og þær fengu ávexti að henni lokinni. Ég sagði þeim að það yrði skyndiskoðun á herbergjunum, allar áttu að vera komnar upp í rúm og tilbúnar í háttinn og ég ætlaði að skoða herbergin fyrir hegðunarkeppnina… foringjarnir voru á meðan að undirbúa brjálað náttfatapartý 🙂 Það er núna í fullum gangi og þær rétt í þessu að fá ís og heyra sögu. Þær koma svo niður og bænakonan þeirra býður þeim góða nótt og þær sofna vonandi fljótt eftir að partýinu lýkur 🙂

Á morgun er svo veisludagur 🙂

Kveðja,
Þóra Jenny, forstöðukona.