Heil og sæl!

Í dag var veisludagur hjá okkur. Stelpurnar áttu að fá að sofa hálftíma lengur útaf náttfatapartýinu í gær en þegar ég fór að vekja voru stelpur í þremur herbergjum af fjórum vaknaðar. Morgunmaturinn var kl. 10 og svo Biblíulestur. Svo var hádegismatur.

Eftir matinn vorum við með Furðuleika, þar sem keppt var í ýmsum skrítnum og asnalegum greinum. Þær fengu svo veisludagskaffi. Þar sem það er veisludagur þá áttu allar að fara í sturtu, potturinn var að sjálfsögðu í boði en þær nenna ekki alltaf í hann. Þær klæddu sig í fínu fötin, einhverjar fengu fastar fléttur frá okkur starfsfólkinu og allar orðnar mjög spenntar fyrir kvöldinu.

Veislukvöldið byrjaði á matnum, þar sem var heimabökuð pizza og kók. Á eftir fylgdi kvöldvaka þar sem foringjarnir skemmtu með fimm frábærum leikritum. Ég stjórnaði kvöldvöku og foringjarnir létu ljós sín skína 🙂 Stelpurnar skemmtu sér ótrúlega vel og tóku vel undir í söng.

Þær fengu ávexti áður en þær fóru inn að hátta. Á bænaherbergjum á síðasta kvöldinu gefa bænakonurnar stelpunum biblíumyndir, þar sem er persónuleg kveðja til hverrar og einnar og vel valið vers úr Biblíunni. Nú er að komast ró á húsið eftir annasaman dag.

Við komum heim á morgun, leggjum af stað héðan frá Ölveri kl. 17 og verðum við Holtaveg 28 (höfuðstöðvar KFUM og KFUK á Íslandi) rétt um kl. 18.

Myndir koma vonandi inn fljótlega en ég ætla að láta fylgja eina mynd af Ölveri í kvöldsólinni.

20130629_222454

Kveðja,

Þóra Jenny, forstöðukona.