Heil og sæl.

Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á fréttaskortinum í þessum ævintýraflokki en internetið var aðeins að stríða mér í gær.

Fyrsti dagurinn gekk mjög vel. Nú eru hjá okkur 44 stelpur, sem þýðir að flokkurinn er fullur! Hér er mikið líf og fjör. Margar þeirra eru að koma í ævintýraflokk í fyrsta sinn en aðrar hafa farið 1-2 í svoleiðis flokk! Fyrsti dagurinn er alltaf mjög hefðbundinn, þeim er öllum safnað saman við komuna hingað í Ölver svo hægt se að raða þeim niður í herbergi. Vinkonur eru saman og flestar fengu óskir um ákveðin herbergi uppfylltar. Þær komu sér fyrir og fengu hádegismat. Svo var hin hefðbundna kynningarganga um svæðið og samhristingsleikir niðri á fótboltavelli.  Eftir kaffi var brennókennsla og brennóleikir. Eftir mat var kvöldvaka í boði foringjanna, mólikúl-leikur og klósettpappírsleikurinn góði. Þær fengu þó ekki að fara að sofa strax eftir kvöldvöku heldur fóru þær út í ratleik sem endaði þannig að þær fengu vísbendingar um það hver væri bænakonan þeirra. Skógarver fékk til dæmis lit sem vísbendingu og bænakonan þeirra var í vaxlitabúningi. Mjög skemmtilegt allt saman 🙂

Það gekk bara þokkalega að sofna í gær og var komin alveg ró á húsið um miðnætti.

Dagurinn í dag byrjaði á hefðbundinn hátt. Þær voru vaktar klukkan 9 og morgunmatur hálftíma síðar. Í morgunmat var boðið upp á hafragraut ásamt súrmjólk og morgunkorni og fengu færri graut en vildu. Ráðskonan ætlar að tvöfalda magnið á morgun 🙂 Svo var fánahylling og biblíulestur. Eftir biblíulesturinn fóru þær út í íþróttahús og brennókeppnin hófst. Liðin heita nöfnum úr Harry Potter sögunum en ásamt Harry eru liðin Ron Weasley, Hermionie Granger, Dumbledore, Hagrid og Voldemort.

Eftir hádegismat var fjallganga. Hún gekk mjög vel. Eftir kaffi var íþróttakeppni með hliðarhlaupi og sippi. Skógarver og Lindarver undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna og hin herbergin máttu fara í sturtu/heita pottinn. Í kvöldmatnum var tilkynnt að á kvöldvökunni væri hattaþema og það mátti sjá marga skemmtilega og frumlega hatta 🙂 Skógarver og Lindarver stóðu sig vel í þeirra atriðum á kvöldvökunni. Þær heyrðu hugleiðingu um að þær, hver og ein, væri einstök sköpun Guðs og alveg ótrúlega dýrmæt.

Þær fengu ávexti eftir kvöldvöku og gerðu sig svo tilbúnar fyrir svefninn. Við bænakonurnar fórum svo inn til þeirra og lásum. Nú er alveg að komast ró á húsið.

Það er verið að vinna í myndunum og þær ættu að koma inn bara eftir smástund.

Kveðja,

Þóra Jenny, forstöðukona.