Heil og sæl. Sólin gladdi okkur heldur betur með nærveru sinni í dag! Sumarbúðalíf verður svo yndislegt og auðvelt þegar sólin skín á okkur. Það er samt frábært að vera í Ölveri alltaf en sólin gerir allt svo yndislegt 🙂

Dagurinn okkar byrjaði kl. 9 með vakningu og morgunmat hálftíma síðar. Fánahyllingin var á sínum stað sem og biblíulesturinn. Eftir hann var brennókeppnin okkar góða. Eftir hádegismatinn ákváðum við að nýta tækifærið og fara niður að á og vaða. Það vekur alltaf mikla lukku og flestar fóru þær í sundfötum. Þær skemmtu sér konunglega, vatnið var svolítið kalt en sólin þurrkaði þær jafnóðum.

Eftir kaffi var íþróttakeppni, þriggja staða hlaup og stígvélaspark mælt í kústsköftum. Fjögur herbergi fóru í pottinn en Fuglaver og Hamraver undirbjuggu skemmtiatriði kvöldsins. Eftir matinn var kvöldvaka með skemmtilegum atriðum, söng og hugleiðingu sem að þessu sinni fjallaði um að nefna ekki nafn Guðs á hégóma.

Við starfsfólkið erum búin að eyða löngum tíma í að finna út hvernig best væri að byrja náttfatapartý, sem er í gangi núna. Við þurfum alltaf að hugsa til þess að margar hafa komið svo oft til okkar og við þurfum því alltaf að reyna að finna eitthvað alveg nýtt og það tókst að þessu sinni. Allar bænakonurnar voru komnar inn á herbergin sín en um 10 mínútum seinna voru þær allar komnar út og byrjaðar á konga-línu. Í náttfatapartýinu er Eurovision þema og þær eru í setudansi núna. Á eftir fá þær ís og heyra sögu. Þegar náttfatapartýinu lýkur fara bænakonurnar aftur inn á herbergin til að biðja með þeim og  bjóða góða nótt.

Við setjum myndir inn á eftir.

Kveðja,
Þóra Jenny, forstöðukona.