Heil og sæl!

Dagurinn okkar byrjaði klukkan 9 í morgun eins og venjan er. Morgunmatur og fánahylling á sínum stað. Við sáum mikið eftir því að hafa haft fánahyllingu, við áttuðum okkur ekki á því hversu mikið rok var hérna fyrr en fáninn var kominn upp. Hann var svo tekinn niður fljótlega eftir hádegismat. Biblíulesturinn var á sínum stað og við ræddum um Jesú og allt það góða sem hann kenndi okkur mönnunum með veru sinni hér á jörð fyrir öllum þessum árum síðan. Í lok biblíulestrar hófum við leynivinaleik sem lýkur á veislukvöldvökunni annað kvöld. Þær voru mjög glaðar með það.

Eftir hádegismat var Ölver’s got talent og við fengum að sjá mörg skemmtileg og flott atriði. Eftir kaffi vorum við með Survivor keppni sem var mjög skemmtilegt. Stelpurnar klæddu sig vel og fóru út í rok og rigningu og kvörtuðu ekkert. Þær voru frekar lengi úti og fannst mjög gaman! Þær sem komu síðastar inn komu inn rétt fyrir kvöldmat eða eftir rúmlega 2 tíma, í hávaðaroki og rigningu. Fjallaver undirbjó skemmtiatriði fyrir kvöldvöku.

Kvöldvakan gekk mjög vel. Leynivinaleikurinn fer vel af stað, þær föndra vinabönd og perla, teikna myndir og gera ýmislegt fallegt fyrir leynivininn sinn. Eftir kvöldvöku var kaffihús niðri í matsal. Ráðskonan okkar vill alltaf hafa kaffihús fyrir ævintýraflokka og það lagðist mjög vel í stelpurnar. Bænakonurnar fóru inn á herbergi og lásu og það eru allir komnir í ró núna.

Á morgun er veisludagur sem er alltaf skemmtilegt og við hlökkum mikið til, sérstaklega til kvöldvökunnar þar sem við megum skemmta og gera okkur að fíflum 🙂

Myndir koma inn fljótlega.

Kveðja,
Þóra Jenny, forstöðukona.