Heil og sæl!

Við áttum frábæran veisludag hérna í Ölveri. Hann byrjaði með morgunmat kl. 9:30 og biblíulestri kl. 10:30. Úrslitakeppnin í brennó var svo á dagskrá og það er liðið Ron Weasley sem mun keppa við foringjana á morgun 🙂 Eftir hádegismat var ævintýraratleikur. Það kom nefnilega sjóræningi og stal kaffinu frá okkur og stelpurnar voru sendar út eftir herbergjum til að leysa þrautir og reyna að hafa upp á bakkelsinu okkar. Þær skemmtu sér konunglega og allar fengu þær bollur í poka hjá Kobba sjóræningja. Við tókum helling af myndum á meðan á leiknum stóð en svo áttuðum við okkur á því að minniskortið hafði gleymst í tölvunni :-/ Við eigum því engar myndir frá ævintýraleiknum.

Eftir kaffitímann fóru allar í heita pottinn og/eða sturtu. Þær klæddu sig í spariföt og þær sem vildu gátu fengið fastar fléttur hjá foringjunum. Rétt um klukkan 19 vorum við búnar að raða upp í matsalnum og merkja sæti stelpnanna og hleyptum þeim inn í hollum svo þær gætu fundið nöfnin sín. Í kvöldmatinn var heimabökuð pizza eins og hún gerist best og kók fyrir þær sem vildu!! Þær borðuðu mjög vel. Eftir að við starfsfólkið vorum búnar að borða (og skipuleggja skemmtiatriði kvöldsins) var veislukvöldvakan og myndataka með bænakonunum. Ég fæ að stjórna kvöldvöku og foringjarnir leika í hinum ýmsu leikritum. Stelpurnar skemmtu sér konunglega. Sagan „Þú ert frábær“ var lesin sem hugleiðing kvöldsins, frábær boðskapur sem fylgir þeim vonandi heim.

Þær fengu ávexti í kvöldsnarl og fóru svo inn að hátta og bursta tennur. Á síðasta kvöldinu gefur hver bænakona stelpunum í herberginu biblíumynd eða bænamiða, með persónulegri kveðju og versi úr Biblíunni. Mörgum þykir mjög vænt um bænamiðana sína og geyma þá lengi. Ég á ennþá mína síðan árið 1992 🙂

Vikan hefur gengið mjög vel! Þessar stelpur eru frábærar og alveg til fyrirmyndar! Það hefur verið ótrúlega gaman að eyða vikunni með þeim og okkur finnst leiðinlegt að þær séu að fara heim á morgun!

Ég minni á að við verðum komin á Holtaveginn rétt um kl. 18 á morgun!

Kveðja,
Þóra Jenny, forstöðukona.