Í gær eftir hádegi var margt brallað. Við breyttum m.a húsinu í e.k hryllingshús þar sem stelpurnar fengu að upplifa sjóræningja, vampírur, trúða, líkhús og vinalegan draug (sem var reyndar bara Doddi diskó eftir allt saman). Þær skemmtu sér mjög vel og æptu og hlógu í kór. Eftir allan þennan hrylling var komið að kaffitíma.  Eftir kaffi var úrslitakeppnin í brennó og í ljós kom hverjir eru brennómeistarar Ölvers. Þá fóru þær í heita pottinn og gerðu sig fínar fyrir veislukvöldverðinn, hamborgaraveislu. Kvöldvakan var í boði foringjanna sem léku hvert leikritið á fætur öðru. Eftir kvöldmatinn var kvöldkaffi og svo átti hvert herbergi góða stund með bænakonunni sinni.
Í dag var vakið kl.9.30 og eftir morgunmat og fánahyllingu var biblíulestur þar sem stelpurnar lærðu um það hvernig þær geta varðveitt orð Guðs og vaxið í trúnni og látið gott af sér leiða.  Þá var uppljóstrað hver leynivinur þeirra var en þær hafa verið í leynivinaleik síðasta sólahringinn. Þá keppti vinningsliðið “Glee” í brennó við foringjana en foringjarnir unnu leikinn naumlega. Í hádegismat var mexíkósk kjúklingasúpa. Nú eru stelpurnar úti í ratleik en eftir kaffi munum við hafa verðlaunaafhendingu og lokastund.
Við munum halda héðan klukkan 17 og áætlað er að vera kominn á Holtaveginn kl.18. Ég þakka fyrir frábæra viku og megi Guð blessa allar þessar frábæru stelpur sem hér hafa dvalið hjá okkur!