Í dag komu upp í Ölver 20 hressar stelpur sem allar virtust mjög spenntar fyrir komandi dögum á þessum sælureit. Við komuna var þeim skipt í herbergi og var þess vandlega gætt að allir fengju að deila herbergi með sínum vinkonum. Hópurinn er lítill þessa vikuna og því einungis þrjú herbergi í notkun og ekkert þeirra alveg fullt.
Eftir að stelpurnar höfðu komið sér fyrir var þeim boðið upp á brauð og grjónagraut úr eldhúsinu okkar góða og nýttum við starfsfólkið tækifærið í matartímanum og kynntum okkur og kynntum þeim reglur staðarins. Mikilvægasta reglan er að sjálfsögðu að við virðum hvora aðra og sýnum hvorri annarri umburðarlyndi og kærleika.
Dagurinn leið svo með nokkuð hefðbundinni dagskrá. Eftir hádegismat var farið í göngutúr um svæðið og endaði gönguferðin í hókípókí á fótboltavellinum. Í kaffitímanum var boðið upp á nýbakaðar bollur og pizzasnúða og eftir kaffi fengu öttu stelpurnar kappi í fyrstu íþróttagreinum vikunnar, jötunfötu og hliðahlaupi.
Tíminn leið hratt fram að mat – perlur og vinabönd freistuðu sumra á meðan íþróttahúsið með spennandi skotbolta kallaði á aðrar. Eftir kjötbollur og karftöflumús héldu foringjarnir stelpunum loks hressandi kvöldvöku með leikjum, söng og foringjaleikriti. Stelpurnar fóru allar sáttar og sælar í rúmið.
Ég er þakklát fyrir að vera hér – og fyrir að fá að eyða komandi dögum með þessum flotta stelpnahóp. Veðurspáin er ekki kannski eins og best verður á kosið, en með þennan frjóa foringjahóp og kraftmikla hóp barna verður ábyggilega ekki erfitt að búa til skemmtilega daga hvernig sem viðrar. Ég legg nóttina og næturhvíld þeirra sem hér dvelja í Guðs hendur og þakka fyrir þennan fallega stað og það starf sem hér er unnið.
http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634659898712/