Það gekk vel að vekja stelpurnar í morgun. Margar þeirra voru spenntar að byrja daginn og komnar á fætur og tilbúnar í slaginn þegar foringjarnir komu niður til að vekja.

Við buðum stelpunum upp á Cheerios, Cornflakes og hafragraut ásamt tilheyrandi í morgunmat og borðuðu allar vel. Eftir morgunmatinn og fánahyllingu hófst svo hin eiginlega hegðunar- og umgengniskeppni og voru stelpurnar því allar sendar til að taka til í herberginu sínu. Þannig er herbergistiltekt á dagskrá einu sinni á dag og svo gefa foringjarnir stjörnur fyrir tiltektina og hegðun kvöldið áður. Í lok vikunnar fær það herbergi viðurkenningu sem stendur sig best í þessu tvennu.

Eftir tiltekt var haldið á biblíulestur og þar töluðum við um Biblíuna og hvernig boðskapur hennar, sem á ekki síður við nú en á ritunartíma hennar, á að vera lampi fóta okkar og ljós á vegi okkar. Foringjarnir léku lítinn leikþátt til að stelpurnar sæu betur fyrir sér líkingu Bilíunnar við ljós. Að lokum æfðum við okkur í að fletta upp í Nýja testamentinu. Minnisvers dagsins var Sálm. 119.105.

Eftir biblíulesturinn fóru allar stelpurnar út í íþróttahús í brennó. Þar sem flokkurinn er lítill þurfti ekki að hefja brennókeppnina í dag og nýttu foringjarnir því tækifærið til að kenna stelpunum leikinn. Það var vel heppnað og verður spennandi að sjá þær spreyta sig í í fyrstu umferð brennókeppninnar á morgun.

Í hádegismat fengum við steiktan fisk og kartöflur og fullt af grænmeti. Með alla þá orku í kroppnum var ekkert mál að skunda inn eftir fjallinu okkar og upp á það. Stelpurnar voru allar rosalega duglegar í gönguferðinni og margar sem fóru eins langt upp á fjall og leyft var – sumar meira að segja tvisvar!

Eftir gönguferð og leiki fengum við bollur, vínarbrauð og jógúrtköku. Allt var þetta nýbakað og ilmandi úr dásamlega eldhúsinu okkar. Við tók svo íþróttakeppni (greinar dagsins voru „hopp á Einari“ og „broskeppni“) heitur pottur og sturta og undirbúningur kvöldvöku.

Aspassúpa og brauð var það sem boðið var upp á í kvöldmat og stúlkurnar fóru glaðar og saddar upp á kvöldvöku þar sem Hamraver sá um að skemmta okkur með leikritum og leikjum.

Dagurinn var góður. Við fengum þurrt og hlýtt veður í gönguferðinni og sólin lék við okkur allan seinnipartinn. Við erum þakklátar fyrir það. Aðeins bar á heimþrá við háttatímann í kvöld, eins og í gær, en það er alvanalegt hjá stelpum sem ekki fara oft að heiman og foringjarnir okkar takast á við áskorunina af mikilli alúð og með kærleika. Árangurinn lætur ekki á sér standa og eru allar stelpur sofnaðar vært í rúmum sínum núna. Við þökkum Guði fyrir daginn og fyrir þennan hóp sem við erum allar sammála um að sé mjög leikglaður og skemmtilegur.

Endilega líkið við síðu sumarbúðanna í Ölveri á Facebook hér. Fyrir þá sem nota Facebook verður þá enn auðveldara að fylgjast með fréttum af starfinu!

Myndir:

http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634667979405/