Í dag hefur veðrið svo sannarlega leikið við okkur. Eftir hinn hefðbundna morgunmat (Cheerios, Cornflakes og hafragrautur) fór fram tiltekt samkvæmt áætlun og eftir það biblíulestur. Á biblíulestri héldum við áfram að fjalla um Biblíuna og erindi hennar við okkur í dag. Það gerðum við í þetta skiptið með því að setja á svið spjallþátt þar sem þáttarstjórnandi (undirrituð) tók viðtal á léttum nótum við ýmsar persónur úr Biblíunni og upplifun þeirra af Guði (sem leiknar voru af foringjum og aðstoðarforingjum). Stelpurnar hlustuðu vel og greinilegt að efnið náði vel til þeirra. Eftir biblíulesturinn ruku svo allar út í íþróttahús þar sem hin eiginlega brennókeppni hófst fyrir alvöru og liðin Taylor Swift, Miley Cyrus, Selena Gomez og Demi Covato tókust á í fyrstu umferð.
Að loknum hádegismat (hakk og spagettí að hætti Ölvers) var ákveðið að nýta sólina á meðan hún léti loksins sjá sig. Allar stúlkurnar pökkuðu auka sokkum, buxum og handklæði í poka eða bakpoka og saman örkuðum við niður að á. Áin var köld en stelpurnar hugrakkar og spennandi að bleyta tærnar í ánni. Einhverjar duttu á bossann þegar þær gerðust of djarfar og þá var nú ágætt að vera með þurr föt meðferðis.
Við drösluðum svo þegar heim var komið skinkuhornum og bananabrauði niður í laut ásamt djúsbrúsum til að missa örugglega ekki af einum einasta sólargreisla. Eftir kaffi var svo venjuleg eftirmiðdagsdagskrá: íþróttakeppni (greinar dagsins voru víðavangshlaup og sippukeppni), heitur pottur og undirbúningur kvöldvöku.
Eftir að hafa torgað talsverðu af skyri og smurðu brauði var stutt en skemmtileg kvöldvaka í umsjá Skógarvers og í lok hennar flutti Didda foringi hugleiðingu og boðskapur hennar var hversu dýrmætar við allar værum, með öllum okkar sérkennum og ólíku hæfileikum.
Deginum lauk þó aldeilis ekki eftir kvöldvökuna. Þegar stelpurnar voru allar komnar upp í rúm, tannburstaðar og rólegar og tilbúnar að sofna heyrðist ofsalegt glamur í pottum og pönnum og starfsfólkið birtist náttfataklætt og málað í framan og smalaði öllum með látum upp í stofu aftur í skemmtilegt náttfatapartý. Þar var farið í setudans og ásadans, farið á ljónaveiðar, og fylgst með töfrabrögðum. Svo fengum við ís og hlustuðum á sögu og nú eru allar stelpurnar sofnaðar eftir skemmtilegt ævintýrakvöld. Útsof á morgun!
Myndir:
http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634685419097/