Það voru þreyttar stelpur sem stauluðust fram í morgunmat í morgun, hálftíma seinna en venjulega, enda átök sem fylgja því að vaka lengi í náttfatapartýi. Þær voru þó fljótar að gírast í gang eftir morgunmatinn og tóku til í herbergjunum sínum af mikilli samviskusemi áður en biblíulesturinn hófst. Á biblíulestri var svo fjallað um hver Jesús var, hvernig hann kenndi, sýndi kærleika og gerði kraftaverk. Stelpurnar hlýddu á glærusögu um miskunnsama Samverjann og hvernig við eigum að koma fram við náungann eins og við myndum koma fram við Jesú. Eftir biblíulesturinn hélt svo hin geysispennandi brennókeppni áfram göngu sinni. Útlit er fyrir að úrslit ráðist á morgun.

Stelpurnar borðuðu vel af hádegismatnum, enda boðið upp á hamborgara og franskar! Ekki amalegt það! Þar sem veðrið var ekki alveg eins og best verður á kosið í dag héldum við loksins eftir hádegi hárgreiðslukeppnina sem margir höfðu hreinlega beðið eftir frá því í fyrra sumar skilst mér. Foringjarnir og börnin áttu saman notalega stund uppi í stofu þar sem hlustað var á tónlist, spjallað, lesið og föndrað á meðan hárgreiðslurnar urðu til í höfðum stúlknanna, hver annarri frumlegri og fegurri. Við vorum sammála um það starfsfólkið að þessi stund með börnunum hefði verið frábært merki um hversu góður þessi hópur er sem við höfum í höndunum. Þær eru jákvæðar og skemmtilegar og vinna vel saman þrátt fyrir að vera ólíkar. Það er dásamlegt að fylgjast með því.

Eftir mjúka og nánast volga skúffuköku og nýbakaðar bollur skelltu stelpurnar sér í íþróttakeppni í íþróttaskálanum okkar (greinar dagsins voru köngulóahlaup og boltakast) og svo voru það fastir liðir eins og venjulega: heitur pottur og sturtur og undirbúningur kvöldvöku. Dagurinn endaði á kakósúpu og kvöldvöku í boði Hlíðarvers. Á kvöldvökunni talaði Steinunn foringi um fyrirgefninguna og sagði stelpunum söguna um skulduga þjóninn sem fékk uppgefna skuld sína. Dagurinn endaði á hefðbundinni og notalegri svæfingu í umsjá foringjanna. Ekkert náttfatabrölt í þetta skiptið.

Dagurinn í dag var fyrsti dagurinn þar sem veðrið veitti okkur einhverja áskorun að ráði. Það kom þó ekkert að sök því við vorum duglegar að vera úti allan daginn síðustu daga og margar farið að lengja eftir hefðbundnum dagskrárliðum innanhúss, eins og hárgreiðslukeppni og hæfileikakeppni. Innivera veitir líka oft betri tækifæri til skrafs og tíminn í dag hefur verið góður tími til að kynnast stelpunum í flokknum betur og átta sig á hvernig best er að mæta þeim og þeirra þörfum. Hér hefur myndast talsverð hárgreiðslustemmning síðustu daga, enda miklir fléttumeistarar í foringjahópnum, perlurnar eru vinsælar og sömuleiðis hafa sumar stelpurnar náð töluverðri leikni í að hnýta vinabönd. Svona innidagar eru því ekkert verri af og til. Við vonumst þó til að geta verið meira úti á morgun.

Myndir:

http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634698284872/